Fjölmargar leiðir til að takast á við offitu

Mynd af frétt Fjölmargar leiðir til að takast á við offitu
29.11.2023
Mikil umræða hefur skapast um lyfjameðferð við sjúkdómnum offitu í kjölfar breytinga á reglum um greiðsluþátttöku vegna lyfjanna. Þó lyfin hafi hentað mörgum eru þau ekki eina leiðin til að takast á við offitu enda ýmis þjónusta í boði hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Markmið offitumeðferðar er alltaf að bæta heilsu og lífsgæði með því að koma jafnvægi á þyngdarstjórnunarkerfi líkamans. Ekki er mælt með þyngdartapi sem valdið getur skaða á andlegri og líkamlegri heilsu eins og þekkt er getur gerst við megrunartilraunir. 

Fyrsta skrefið hjá einstaklingum sem hafa áhyggjur af sinni líkamsþyngd er að hafa samband við heilsugæsluna. Það má til dæmis gera með því að hringja í síma 1700 eða hafa samband við netspjallið á vefnum Heilsuveru og fá þar leiðbeiningar um framhaldið. Á Heilsuveru má einnig finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, til dæmis um næringu og mataræði, svefntruflanir og fleira sem getur haft áhrif á hvernig líkaminn stýrir líkamsþyngdinni.

Í Heilsubrú Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er boðið upp á reglulega hópfræðslu um offitumeðferð þar sem sérhæfð meðferð með lyfjum og efnaskiptaskurðaðgerð er útskýrð og farið yfir hvaða skref þarf að taka til að hefja slíka meðferð. Hægt er að skrá sig til þátttöku á vef heilsugæslunnar.

Ef ástæða þykir til er boðið upp á einstaklingsviðtal. Í viðtalinu er skoðað hvað gæti verið að valda þyngdaraukningu, en fjölmargir þættir hafa áhrif á það hvernig líkaminn stýrir þyngd sinni. 

Unnið í teymi með fagfólki

Heilsueflandi móttökur heilsugæslustöðva veita ráðgjöf, stuðning og eftirfylgd vegna langvinnra sjúkdóma, þar á meðal offitu. Þar vinna einstaklingarnir sjálfir í teymi með fagfólki til að finna bestu leiðina til að efla heilsu á heildrænan hátt. 

Þyngdarsaga einstaklings er skoðuð, þar á meðal fyrri tilraunir til þyngdartaps. Almenn heilsufarssaga er yfirfarin þar sem margir sjúkdómar og lyfjameðferð við þeim geta truflað eðlilega þyngdarstjórn líkamans. Metið er hvort til staðar eru einkenni eða áhættuþættir sjúkdóma sem þekkt er að geti fylgt offitu. Einnig er farið yfir daglegar venjur eru þar sem næring, hreyfing, svefn og andleg líðan hafa mikil áhrif á það hvernig líkaminn stýrir líkamsþyngd. 

Meðferð felur alltaf í sér leiðréttingu á skekkjum sem trufla þyngdarstjórnunarkerfum ef til staðar eru, heilbrigðar lífsvenjur og jafnvægi í daglegu lífi. Samhliða er metið hvort þörf er á sérhæfðri meðferð svo sem lyfjameðferð eða efnaskiptaskurðaðgerð eða hvort þörf er á að gera ítarlegri rannsóknir. 

Svefn og andleg líðan geta haft áhrif

Ef ástæða er til að bæta daglega næringu eða máltíðamynstur er hægt að fá ráðgjöf og stuðning í heilsueflandi móttöku. Ef þörf er á næringarmeðferð eða ef til staðar eru sjúkdómar sem trufla eðlilega næringu er vísað til næringarfræðings sem starfar í Heilsubrú Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Regluleg hreyfing við hæfi er nokkuð sem allir þurfa að tileinka sér til að bæta heilsu. Ef þörf er á aðstoð til að koma hreyfingu inn í daglegt líf er hreyfiseðill virkjaður. Sjúkraþjálfari aðstoðar við að setja upp áætlun um bætta hreyfingu og styður við áætlunina. Ef stoðkerfisvandi hamlar hreyfingu eru gerðar viðeigandi rannsóknir og meðferð komið af stað sem meðal annars getur falið í sér tilvísun til sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. 

Ef svefn er að trufla þyngdarstjórnun líkamans er mikilvægt að greina og taka á þeim vanda. Sérstaklega er mikilvægt að greina og meðhöndla kæfisvefn ef hann er til staðar. Aðstoð til að vinna með vægar svefntruflanir er hægt að fá í heilsueflandi móttökum. Einnig er boðið upp á svefnnámskeið hjá Heilsubrú. 

Þar sem andleg vanlíðan er til staðar er fundin leið til að vinna að bættri líðan. Þá fylgir nánari greining í kjölfarið og viðeigandi meðferð innleidd. Hægt er að fá ráðgjöf og mat sálfræðinga í heilsugæslunni til að fá aðstoð til að finna hvaða leið hentar best. Í Heilsubrú eru reglulega haldin hópnámskeið i hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem geta verið afar hjálpleg. 

Meðhöndlun ævilangt

Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem mikilvægt er að meðhöndla ævilangt. Sú meðferð getur kallað á mismunandi aðgerðir á ólíkum stigum sjúkdómsins til að minnka líkur á margvíslegum áhættuþáttum og fylgisjúkdómum.