Áhersla á geðrækt og sjálfsvígsforvarnir í september

Mynd af frétt Áhersla á geðrækt og sjálfsvígsforvarnir í september
04.09.2023

Forvarnarátakinu Gulur september var hrint úr vör fyrir helgi af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Átakinu er ætlað að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna.

Sérstök áhersla verður á gula daginn þann 7. september. Þá geta allir sem vilja tekið þátt með því að klæðast gulu, skreyta með gulu og skapa hlýja og góða stemningu. Hvatt er til þess að deila gulum og glöðum myndum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #gulurseptember. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur þátt í átakinu, sem er samvinnuverkefni fjölda stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. 

Sem hluti af Gulum september verður boðið upp á geðræktargöngur víða um lands, fræðsluerindi, kyrrðarstundir og fleira. Átakið stendur aðeins inn í október og lýkur 10. október á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum með viðburði í Bíó paradís.

Hægt er að kynna sér allt um Gulan september á gulurseptember.is þar sem meðal annars má finna dagskrá með ýmsum viðburðum.

Það er hjálp að fá


Ef þér finnst lífið stundum ekki þess virði að lifa því, leitaðu þá hjálpar. Ef þú hefur áhyggjur af ástvini, vini eða vinnufélaga ræddu það við viðkomandi. Það hjálpar að deila líðan sinni með öðrum. 

  • Símaráðgjöf Heilsuveru 1700 og netspjallið á vefnum heilsuvera.is (opið alla daga frá 8-22)
  • Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið á 1717.is (opið allan sólarhringinn)
  • Píetasíminn 552 2218 (opið allan sólarhringinn)
  • Sjá nánar á sjalfsvig.is