Góður árangur af TMS- meðferð Heilaörvunarmiðstöðvar

Mynd af frétt Góður árangur af TMS- meðferð Heilaörvunarmiðstöðvar
19.04.2023

Mikil eftirspurn er eftir þjónustu Heilaörvunarmiðstöðvar (HÖM) en þar er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi. TMS kallast segulörvunarmeðferð á íslensku. Meðferðin er notuð þegar skjólstæðingar hafa ekki notið árangurs af fyrri gagnreyndum meðferðum svo sem lyfjameðferðum og viðtalsmeðferðum.  

Á fyrsta starfsári teymisins hefur árangur af meðferðinni almennt verið mjög góður og ljóst að meðferðin þolist vel samkvæmt frásögnum skjólstæðinga. Gróft má segja að samkvæmt erlendum rannsóknum nái 50-60 prósent skjólstæðinga með meðferðarþrátt þunglyndi einhverjum bata á sínum sjúkdómi, það er að minnsta kosti helmings minnkun einkenna eða fullum bata.  

Nú er verið að efla þjónustuna. Teymið hefur einungis eitt tæki eins og er og þörfin fer vaxandi miðað við biðlista. Þörf er á að fjölga TMS tækjum og mannskap til að geta veitt fleirum þessa nýju gagnreyndu meðferð og nú er unnið að því hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Heilaörvunarmiðstöðin er ný meðferðareining innan Geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hún tók til starfa í febrúar 2022. Síðan þá hafa um það bil 60 einstaklingar fengið meðferð. Í dag eru 50 manns á biðlista HÖM. Eitt TMS tæki nær að sinna um það bil 10 til 12 skjólstæðingum á dag og hver meðferðarlota er 4-6 vikur. Það er því ljóst að fjölga þarf tækjum og mannskap ef halda á biðlistum niðri.  

Nútíma taugavísindi eru í síauknum mæli farinn að líta á hina ýmsu geðsjúkdóma sem truflanir í ákveðnum kerfisrásum heilans (dysfunctions of distributed neural circuitry) og TMS tæknin gerir okkur kleift að hafa áhrif á slíkar kerfisrásir án þess að þurfa grípa til svæfingar, lyfja eða deyfingar. Með meðferðinni er hugmyndin að styrkja ákveðinn svæði heilans, sem hjá okkur öllum , gegna því hlutverki að aðstoða við að stjórna og hafa hemil á tilfinningalífi okkar.  

TMS-meðferð byggir á endurtekningu. Áhrifin koma hægt og bítandi og því mæta skjólstæðingar í meðferð alla virka daga vikunnar í fjórar til sex vikur. Oftast tekur meðferðin einungis þrjár mínútur á hverjum degi og skjólstæðingur situr í þægilegum stól á meðan á meðferð stendur. Heimilislæknar og geðlæknar vísa fólki í meðferðina eftir að hafa metið hvort meðferðin henti viðkomandi.  

„TMS er kærkominn nýjung í meðferð einstaklinga með alvarlegt þunglyndi sem ekki hafa svarað fyrri meðferðum. Því þrátt fyrir bestu mögulegu lyfjameðferð og viðtalsmeðferð sem völ er á við þunglyndi, nær um þriðjungur sjúklinga ekki ásættanlegum bata af þeim meðferðum. Auk þess er þunglyndi algengur vandi sem hrjáir um 5% fullorðinna á hverjum tíma og telst sjúkdómurinn einn mest íþyngjandi sjúkdómurinn innan læknisfræðinnar. Sumir vilja ganga svo langt að nefna sjúkdóminn “the silent killer” okkar kynslóðar með tilliti til alvarleika þess og tíðni sjálfsvíga.” segir Dagur Bjarnason geðlæknir og yfirlæknir HÖM.  

Á Heilaörvunarmiðstöð starfar fagfólk sem fengið hefur sérstaka þjálfun í meðferð með TMS-tækjum. Nú eru geðlæknir, hjúkrunarfræðingur og taugalíffræðingur starfsmenn HÖM sem hefur aðsetur á nýrri og glæsilegri heilsugæslustöð í Mosfellsumdæmi. 

Á myndinni má sjá starfsmenn HÖM með tækið í baksýn.