Þjónusta almennra geðheilsuteyma sannað gildi sitt

Mynd af frétt Þjónusta almennra geðheilsuteyma sannað gildi sitt
17.04.2023

Þverfagleg þjónusta almennra geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur sannað gildi sitt en fyrirséð er að fjölga þurfi starfsfólki til að viðhalda góðu þjónustustigi, að því er fram kemur í ársskýrslu teymanna

Almennu geðheilsuteymin sinna geðheilbrigðisþjónustu hvert á sínu upptökusvæði. Teymin eru þrjú talsins; Geðheilsuteymi austur, Geðheilsuteymi suður og Geðheilsuteymi vestur. Starfsfólk teymanna tekur á ýmiskonar vanda en algengustu ástæður þess að fólki er vísað til teymanna eru kvíði og þunglyndiseinkenni. Hvert teymi sinnir um 200 skjólstæðingum á ári.

Teymin sinna meðferð við flóknum geðrænum vanda. Í hverju teymi starfar breiður hópur fagfólks með mikla þekkingu og reynslu og er lögð áhersla á þverfaglega teymisvinnu þar sem þarfir notandans eru hafðar að leiðarljósi. Bæði er unnið með einstaklingum og boðið upp á ýmiskonar hópúrræði.

Í ársskýrslu teymanna er vakin athygli á því að úrræði vanti fyrir hópa sem falli utan þess hóps sem teymunum sé ætlað að sinna. Þannig skorti til að mynda sérhæfða þjónustu við einstaklinga á einhverfurófi, aldraða og langveika innan geðheilbrigðiskerfisins.  

Geðheilsuteymin sinna verknámi fyrir nema í hjúkrun, læknisnámi og sálfræði. Í skýrslunni er kallað eftir því að teymin fái sérnámsnema í geðlækningum, heimilislækningum, geðhjúkrun, sálfræði og félagsráðgjöf. Fjölmörg tækifæri séu fyrir nema innan geðþjónustu heilsugæslunnar og mikilvægt að skapa framtíðar starfsvettvang fyrir fagfólk. Tryggja þurfi geðþjónustu heilsugæslunnar sama aðgengi að nemum og öðrum stofnunum.

Hægt er að kynna sér starfsemi geðheilsuteymanna í ársskýrslu þeirra fyrir árið 2022.