Vitundarvakning um skimanir fyrir krabbameini

Mynd af frétt Vitundarvakning um skimanir fyrir krabbameini
23.03.2023
Konur þekkja almennt vel fyrirkomulag skimana fyrir krabbameini og vita hvar þær eiga að sækja þjónustu. Mikil breyting hefur orðið á þekkingu á skimununum á undanförnu ári samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup vann fyrir Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það er virkilega jákvætt að sjá að konur þekkja almennt vel fyrirkomulag skimana og hvert þær sækja bæði leghálsskimanir og brjóstaskimanir,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Könnun Gallup sýnir að ríflega 76 prósent kvenna þekkja fyrirkomulag skimana fyrir brjóstakrabbameini og vita hvert þær eiga að fara í skimun. Þekkingin hefur aukist verulega milli ára, en í byrjun árs 2022 sögðust um 52 prósent kvenna þekkja fyrirkomulagið og vita hvert þær eiga að leita.

Brjóstaskimanir fara fram í Brjóstamiðstöð Landspítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá er skimað fyrir brjóstakrabbameini á öðrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni eftir fyrir fram ákveðinni dagskrá sem finna má á vefnum skimanir.is. Einkennalausum konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. 

Konur sem fengið hafa boðsbréf geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini með því að senda tölvupóst á krabbameinsskimun@heilsugaeslan.is eða með því að hringja í síma 513-6700 milli 8:30 og 12:00 alla virka daga.

Leghálsskimanir á heilsugæslustöðvum

Svipað hlutfall kvenna þekkir fyrirkomulag leghálsskimana, rúmlega 72 prósent. Þekking á leghálsskimunum hefur einnig aukist verulega frá síðasta ári, þegar ríflega 47 prósent kvenna þekktu fyrirkomulagið og vissu hvert á að leita.

Leghálsskimanir fara fram á heilsugæslustöðvum. Konur sem fengið hafa boðsbréf í skimun geta pantað tíma í gegnum vefinn heilsuvera.is. Miðað er við að konum sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23 til 29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30 til 64 ára.

„Við vitum að það skiptir miklu máli að greina krabbamein sem fyrst svo við hvetjum konur sem fá boðsbréf í krabbameinsskimun að panta tíma og koma í skimun sem fyrst,“ segir Ágúst.

Kostar minna en margar halda að fara í skimun

Könnun Gallup leiddi í ljós að minni þekking var á kostnaði við að fara í krabbameinsskimun. Um 48 prósent kvenna þekkja mjög eða frekar vel hvað kostar að fara í skimun fyrir krabbameini en um 29 prósent þekkja það mjög eða frekar illa.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er algengt að konur telji dýrara að fara í skimun en það er í raun. Aðeins er greitt 500 króna komugjald þegar farið er í skimun fyrir leghálskrabbameini á heilsugæslustöð. Kostnaður við að fara í skimun fyrir brjóstakrabbameini eru 5.000 krónur.

Allar upplýsingar á skimanir.is

Allar upplýsingar um krabbameinsskimanir hér á landi má finna á vef Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á vefnum skimanir.is.