Sumarnámskeið fyrir unglinga með OCD og foreldra þeirra

Mynd af frétt Sumarnámskeið fyrir unglinga með OCD og foreldra þeirra
13.02.2023
Boðið verður upp á hópnámskeið í byrjun sumars sem ætlað er unglingum á aldrinum 13 til 18 ára með áráttu- og þráhyggjuröskun og foreldrum þeirra.

Námskeiðið er haldið af Geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sálfræðideild Háskóla Íslands. Þar munu bæði unglingarnir og foreldrar þeirra fá fræðslu um OCD og hvernig það skemmir fyrir manni dags daglega. Þá læra unglingarnir aðferðir til að minnka þráhyggjur og áráttur.

Unglingarnir verða hver með sinn þjálfara og gera æfingar í tímum, vinna verkefni og taka þátt í áskorunum til að streitast á móti OCD-inu. Hluti af námskeiðinu gengur út á að foreldrar mæti í hóptíma með hinum foreldrunum til að skilja betur OCD, þau áhrif sem það hefur í daglegu lífi og hvaða verkfæri er gott að nota til að streitast á móti því.

Námskeiðið hefst þriðjudaginn 23. maí og er daglega í 10 daga, 2,5 klukkustundir á dag. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig óska má eftir því að taka þátt í námskeiðinu.

Námskeiðsgjald er 25.000 krónur en meðferðin er niðurgreidd með styrkjum frá Lýðheilsusjóði Landlæknisembættisins, Heilbrigðisráðuneytinu og Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Um tilraunaverkefni er að ræða hjá heilsugæslunni og verður því gerð rannsókn á árangrinum sem næst á námskeiðinu. Því verða þátttakendur beðnir um að svara spurningalistum þrisvar í tengslum við námskeiðið og fá gjafabréf í bíó fyrir að svara hverjum lista.