Börn að 2,5 ára aldri fái bólusetningu við inflúensu

Mynd af frétt Börn að 2,5 ára aldri fái bólusetningu við inflúensu
09.11.2022

Foreldrum barna á aldrinum sex mánaða til 2,5 ára verður boðið að þiggja bólusetningu við inflúensu fyrir barn sitt í ung- og smábarnaskoðunum á heilsugæslustöðvum þeim að kostnaðarlausu. 

Átakið er í samræmi við tilmæli frá sóttvarnalækni og mun standa yfir frá 1. nóvember síðastliðnum til 31. janúar 2023. Það nær til barna sem fædd eru 1.1.2020 til 30.6.2022.

Ástæður þessa átaks eru að börn á þessu aldursbili hafa fæst komist í snertingu við inflúensu enda ekki komið upp faraldur hér á landi frá því veturinn 2019 til 2020. Inflúensutímabilið sem nú er nýlokið á suðurhveli jarðar var afar slæmt og voru um helmingur þeirra sem leggja þurfti inn á spítala börn, stór hluti þeirra undir tveggja ára aldri.

Til að byrja með verður boðið upp á bólusetningu við inflúensu í eftirtöldum heimsóknum í ung- og smábarnavernd:

  • 6 mánaða
  • 8 mánaða
  • 10 mánaða
  • 12 mánaða
  • 18 mánaða
  • 2,5 ára

Hægt er að fræðast um bólusetningar á vef Heilsuveru.

Nánar er fjallað um bólusetningar barna við inflúensu á vef Landlæknis.