Góð þjónusta og áreiðanlegar upplýsingar

Mynd af frétt Góð þjónusta og áreiðanlegar upplýsingar
03.06.2022

Mikil ánægja er með þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar. Átta af hverjum tíu eru mjög eða frekar ánægð með þjónustuna og enn hærra hlutfall telur upplýsingarnar sem stofnunin veitir áreiðanlegar.

Könnunin var gerð af Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Hún var lögð fyrir á tímabilinu 7. janúar til 29. mars 2022, en alls var spurt um 45 ríkisstofnanir.

Alls sögðust rúmlega 83 þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni mjög eða frekar ánægð með þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Aðeins rúm 6 prósent sögðust frekar eða mjög óánægð. Þegar spurt var um reynsluna af viðmóti hjá heilsugæslunni sögðust rúmlega 87 prósent hana mjög eða frekar góða.

„Við hjá heilsugæslunni erum bæði stolt og ánægð með þennan góða árangur. Það er auðvitað okkar frábæra starfsfólki að þakka hvernig til hefur tekist og augljóst að þau leggja mikið á sig til að halda uppi góðri þjónustu þrátt fyrir gríðarlegt álag tengt heimsfaraldrinum,“ segir Svava Kristín Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs mannauðs og nýliðunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þær upplýsingar sem starfsfólks Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins veitir eru almennt taldar áreiðanlegar. Alls sögðu rúmlega níu af hverjum tíu að upplýsingar frá stofnuninni séu mjög eða frekar áreiðanlegar og aðeins um tvö prósent töldu þær mjög eða frekar óáreiðanlegar.

Margir nota stafræna þjónustu

Athygli vekur hversu hátt hlutfall þeirra sem nota þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa nýtt sér stafræna þjónustu. Alls sögðust um níu af hverjum tíu hafa nýtt sér stafræna þjónustu heilsugæslunnar. Aðeins um fjögur prósent höfðu lítinn áhuga á að nýta stafrænu þjónustuna.

Þorri þeirra sem nýtt hefur sér stafræna þjónustu heilsugæslunnar er ánægður með þjónustuna. Alls sögðust nærri átta af hverjum tíu mjög eða frekar ánægð með stafræna þjónustu, en tæplega fjögur prósent voru óánægð með þessa þjónustu.

„Við höfum lagt mikið í að þróa stafræna þjónustu heilsugæslunnar og hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Það höfum við til dæmis gert með vefnum Heilsuveru, sem almenningur notar mjög mikið. Það er þróun sem á bara eftir að aukast á næstu árum og það má eiginlega segja að forritun sé ný tegund heilbrigðisþjónustu,“ segir Svava.