Hefðbundin starfsemi HH aukist þrátt fyrir faraldur

Mynd af frétt Hefðbundin starfsemi HH aukist þrátt fyrir faraldur
25.05.2022

„Heilbrigðiskerfið er ein mikilvægasta stoð samfélagsins,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem haldinn var í morgun.

Á fundinum þakkaði heilbrigðisráðherra starfsfólki heilsugæslunnar fyrir frábæra framgöngu í heimsfaraldrinum. Þar hafi starfsfólkið ekki einungis sýnt hugmyndaauðgi og dugnað í að takast á við faraldurinn heldur einnig samhliða því náð að halda uppi hefðbundinni þjónustu.

Willum sat nýverið ársþing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og sagði hann umræður þar um stríð, frið og heilbrigðismál sitja þungt í sér. „Við erum minnt á það að algjör forsenda heilbrigðis er friður,“ sagði Willum. „Stríð, hungur og sjúkdómar eru vinir.“

Umræður um afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar eru fyrirferðarmiklar um þessar mundir enda faraldurinn gríðarlegt álagspróf á heilbrigðiskerfið, sagði Willum. Berlega hafi komið í ljós á ársþingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að tekið væri eftir góðum árangri Íslands í baráttunni við faraldurinn.

„Það er mikilvægt að við horfum til baka á hvernig við tókumst á við þetta, lærum af því og styrkjum kerfin okkar,“ sagði Willum. Þar verði að horfa sérstaklega til þess góða starfsfólks sem haldi heilbrigðiskerfinu gangandi, þar með talið starfsfólki Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlúa verði að starfsfólkinu eftir mikið og langvarandi aukaálag, ekki með sérstöku átaksverkefni heldur verði sú vinna að vera viðvarandi verkefni.

Hefðbundin starfsemi jókst

Eins og árið á undan einkenndist árið 2021 af viðbrögðum við heimsfaraldrinum sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á ársfundinum. Sýnatökur hafi haldið áfram og auk þess verið ráðist í það risavaxna verkefni að bólusetja alla þjóðina.

Óskar benti á að til viðbótar við öll verkefni tengd faraldrinum hafi hefðbundin starfsemi heilsugæslunnar vaxið verulega milli ára. „Þetta gat okkar starfsfólk, með hjálp fjölda aðila sem komu að þessu með okkur úr stofnunum og fyrirtækjum alls staðar að, séð til þess að gengi upp. Ég held að það sé algjört einsdæmi,“ sagði Óskar.

Mikið mætt á starfsfólkinu 

Mikið hefur mætt á starfsfólki heilsugæslunnar og því ánægjulegt að sjá að stofnunin kom vel út úr starfsánægjukönnun sem gerð var í lok árs 2021. „Við fylgjumst reglulega með því hvernig starfsfólkinu líður í vinnunni. Við erum held ég meðvitaðri en nokkur annar hvað það skiptir miklu máli að líða vel í vinnunni og gerum allt sem við getum til að láta það ganga eftir,“ sagði Óskar.

Undir þetta tók Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem þakkaði starfsfólki heilsugæslunnar fyrir frábær störf í heimsfaraldrinum. Hún líkti baráttunni við faraldurinn við maraþonhlaup þar sem allir hafi verið boðnir og búnir til að taka þátt þrátt fyrir að vita ekki vegalengdina eða hvaða erfiðleikar væru framundan. 

Bæta upplýsingagjöf og fræðslu til almennings


Mikið er hægt að læra af heimsfaraldrinum og eitt af því sem heilsugæslan hefur lært er hvernig hægt er að nota tæknina enn betur, sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Forritarar séu í raun nýjasta heilbrigðisstarfsfólkið sem mikið muni mæða á í framtíðinni.

Eitt af því sem heilsugæslan ætlar að einbeita sér enn frekar að á næstunni er að bæta heilsulæsi almennings með aukinni upplýsingagjöf og fræðslu, sagði Ragnheiður Ósk. Þar verði ný upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar og vefurinn Heilsuvera í lykilhlutverki.

15 milljón flettingar á Heilsuveru

Vefurinn Heilsuvera er gríðarlega mikið notaður og voru skráðar um 15 milljón flettingar á vefnum á síðasta ári, eða nærri 30 að meðaltali hverja einustu mínútu ársins. Þar megi til dæmis finna þjónustuvefsjá á þremur tungumálum, netspjall þar sem tekið hafi verið við 150 þúsund erindum á síðasta ári og gríðarmikið magn fræðsluefnis um heilbrigðismál. Áfram verði unnið að því að þróa vefinn til að hann nýtist almenningi og tryggi að tími fagfólks í heilbrigðisþjónustu nýtist sem best.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mynd/Eva Björk

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, (t.v.) og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mynd/Eva Björk

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Mynd/Eva Björk