Heilsugæslan upp um átta sæti í Stofnun ársins

Mynd af frétt  Heilsugæslan upp um átta sæti í Stofnun ársins
18.03.2022

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hækkaði um átta sæti milli ára í sínum flokki í könnuninni Stofnun ársins 2021. Könnunin var gerð meðal starfsfólks heilsugæslunnar og hefur verið gerð árlega undanfarin ár. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) endaði í 20. sæti á lista yfir stofnanir með 90 eða fleiri starfsmenn. Í sambærilegri könnun árið 2020 var stofnunin í 28. sæti og í 43. sæti árið 2019. 

Almennt sagðist starfsfólk bæði ánægt og stolt að vinna hjá heilsugæslunni. Starfsandi mælist mjög góður og ánægja meðal starfsfólks með stjórnun stofnunarinnar og ímynd. Samanburður við aðrar heilbrigðisstofnanir kemur einnig vel út. Þannig eru það aðeins Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilsustofnun NLFÍ sem sitja ofar á lista þegar litið er til heilbrigðisstofnana með 90 eða fleiri starfsmenn. 

„Það er virkilega gaman að sjá að HH hækkar um átta sæti milli ára og ekki síður gleðilegt að þátttakan var góð,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  

 „Við eigum auðvitað eftir að rýna betur í tölurnar en svona við fyrstu yfirferð stendur upp úr að starfsfólk er almennt ánægt með vinnustaðinn; starfsanda, vinnuskilyrði og fleira. Það var sérstaklega gleðilegt að sjá að starfsfólk HH er almennt mjög ánægt og stolt af því að starfa fyrir heilsugæsluna,“ segir Óskar. 

Niðurstöður könnunarinnar veita mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi starfsfólks HH, bæði það sem vel hefur gengið og það sem betur mætti fara, og nýtast þegar unnið er að umbótum á stjórnun og starfsumhverfi. 

Á myndinni er starfsfólk Heilsugæslunnar Seltjarnarnesi og Vesturbæ á góðri stund.