Vinnustofa til að ræða sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar

Mynd af frétt Vinnustofa til að ræða sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar
17.03.2022
Stjórnendur á heilsugæslustöðvum ásamt sálfræðingum sem starfa á stöðvum tóku í gær þátt í vinnustofu til að rýna þjónustuna og koma með tillögur að því hvernig megi gera hana enn betri. Alls mættu um 40 manns á þriggja klukkustunda vinnustofu og mjög góðar umræður sköpuðust.

„Skipulag geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi er flókið. Það vantar samfellu, þjónustan er oft á tíðum brotakennd, það vantar betra aðgengi og það eru biðlistar hvert sem litið er,“ sagði Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við upphaf vinnustofunnar. Hún sagði þessa stöðu leiða af sér mikla ásókn í geðheilbrigðisþjónustu hjá heilsugæslunni og langir biðlistar hafi myndast til sálfræðinga. 

Guðlaug sagði mikilvægt að staldra við og skoða skipulag og leiðir til að auka teymisvinnu. Þar sé gott að fá hugmyndir og skoðanir þeirra sem sinna þjónustunni alla daga og hefja samtalið.

Þátttakendum var skipt niður í smærri hópa sem ræddu til dæmis hvað hefur gengið vel og hvar tækifæri séu til að tryggja öfluga þjónustu sálfræðinga á heilsugæslustöðvunum. Þá var einnig rætt um hvernig hægt sé að koma á aukinni þverfaglegri teymisvinnu og hvernig faglegan stuðning sálfræðingar þurfi til að geta veitt sem besta þjónustu.

Niðurstöður úr hópavinnunni verða nú teknar saman og í framhaldinu kynntar framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem mun ákveða næstu skref.