Inflúensa breiðist út – bólusett á heilsugæslustöðvum

Mynd af frétt Inflúensa breiðist út – bólusett á heilsugæslustöðvum
17.03.2022
Undanfarnar vikur hefur verið stígandi í fjölda inflúensugreininga hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og líklegt er að eiginlegur faraldur sé yfirvofandi þó útilokað að halda því fram með vissu, að því er fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni. Álag vegna COVID-19 er nú mikið á heilbrigðisstofnunum og full ástæða til að hindra eins og hægt er að inflúensufaraldur verði útbreiddur næstu vikurnar.

Bólusetning er mikilvæg leið til að draga úr alvarleika inflúensuveikinda, sérstaklega hjá áhættuhópum. Heilsugæslustöðvar eiga nóg af bóluefni og er hægt að mæta án tímapöntunar á heilsugæslustöð til að fá bólusetningu. Yfirlit yfir bólusetningar sem einstaklingar hafa fengið er hægt að finna á mínum síðum Heilsuveru. 

Búast má við að bólusetning geti veitt að minnsta kosti 60 til 70 prósent vörn gegn sjúkdómnum auk þess sem hann verður vægari hjá þeim í hópi bólusettra sem veikjast. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að sem flestir verði bólusettir, ekki síst þeir sem tilheyra forgangshópum.

Einnig skipta persónubundnar sóttvarnir miklu, eins og þekkt er vegna Covid-19 faraldursins. Þar er átt við handhreinsun og notkun á grímum auk þess að mæta ekki í vinnu eða í fjölmenni sé einstaklingur með einkenni.

Inflúensa er veirusýking sem einkennist af háum hita, þurrum hósta, höfuðverk, beinverkjum, oft með hálssærindum og nefrennsli. Einkennin koma snögglega. Hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu er mest meðal aldraðra og fólks með bælt ónæmiskerfi, en inflúensan leiðir á hverju ári til dauðsfalla meðal eldri borgara.