Hagnýtar upplýsingar fyrir fólk með Covid-19

Mynd af frétt Hagnýtar upplýsingar fyrir fólk með Covid-19
14.03.2022

Þrátt fyrir að slakað hafi verið á sóttvarnaráðstöfunum er mjög mikið um Covid-19 smit í samfélaginu og mikilvægt að fólk sinni persónubundnum sóttvörnum. Það er mjög hjálplegt að fólk þekki einkennin og viti hvernig það á að bregðast við ef grunur er um smit.

Hagnýt ráð til sjúklinga

Sjúklingar sem greinast með Covid-19 geta sjálfir gert ýmislegt til að bæta eigin líðan:

  • Drekka vel til að koma í veg fyrir þurrk 
  • Fá góða hvíld
  • Taka hitalækkandi lyf, til dæmis Parasetamol
  • Liggja á hliðum eða sitja upprétt ef hósti er mikill en forðast að liggja á baki
  • Slímlosandi freyðitöflur sem fást í lyfjaverslunum geta hjálpað
  • Gott er að setjast upp á um það bil klukkutíma fresti og gera nokkrar öndunaræfingar, anda djúpt ofan í maga


Það er gott að hafa í huga að þar sem Covid er veirupest er ekki gagn af sýklalyfjum, nema ef komin er fylgisýking.  

Höfum samband ef þarf

Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar aðstoðar fólk með Covid-19 smit. Mikið álag er á þjónustunni þessa dagana svo fólk er hvatt til að leita sér sjálft upplýsinga um einkenni og hagnýt ráð og meta hvort þörf sé á símtali. Hægt er að ná í upplýsingamiðstöðina í síma 513-1700 og fá aðstoð eða leiðbeiningar um næstu skref.

Pössum sóttvarnir

Það er sérstaklega mikilvægt að þeir sem eru smitaðir reyni að takmarka eins og hægt er samskipti við ósmitaða. Ef smitaðir þurfa að vera á ferðinni þurfa þeir að gæta mjög vel að persónubundnum sóttvörnum, nota grímu og spritt og halda fjarlægð við aðra.

Látum vita af smiti

Ef smitaður einstaklingur þarf að koma inn á heilsugæslustöð er mjög mikilvægt að hringja áður en komið er og láta vita að viðkomandi sé með Covid-19 til að takmarka líkur á því að smita aðra.

Þekkjum einkennin

Sjúklingar með Covid-19 smit eru oft talsvert lasnir og sýna oft eitt eða fleiri af einkennunum hér að neðan:

  • Hálsbólga 
  • Hósti 
  • Kuldahrollur 
  • Hiti 
  • Óþægindi frá meltingarvegi, uppköst eða niðurgangur 
  • Kvef, nefrennsli eða stíflað nef
  • Bein- og vöðvaverkir 
  • Þreyta og slappleiki 
  • Bragð- og lyktarskyn hverfur 
  • Erfiðleikar við öndun
  • Höfuðverkur

Hægt er að lesa meira um einkenni, smitleiðir, greiningu og meðferð Covid-19 á vef Heilsuveru.