Innkaup hraðprófa vegna COVID-19

Mynd af frétt Innkaup hraðprófa vegna COVID-19
08.02.2022

Hér birtum við svar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, frá 4. febrúar 2022, við fyrirspurn Félags atvinnurekenda, frá 21. janúar.

Efni:  Gagnvirkt innkaupakerfi (DPS) og innkaup hraðprófa vegna Covid – 19 veirunnar

Vísað er til erindis og fyrirspurnar Félags atvinnurekenda (hér eftir „FA“) til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (hér eftir „HH“ eða „stofnun“), dags. 21. janúar sl., um innkaup á hraðprófum fyrir Covid-19 veiruna. 

Taka verður fram að HH hefur sinnt innkaupum á hraðprófum fyrir allar heilbrigðisstofnanir landsins og hjúkrunarheimili frá síðastliðnu vori. Ber stofnuninni því að hafa neyðarlager tiltækan á hverjum tíma. Innkaupaþörf hefur verið afar ófyrirsjáanleg með hliðsjón af þróun faraldursins og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma sem hafa skapað aukna þörf á innkaupum án teljandi fyrirvara.

Fyrstu innkaup á hraðprófum fóru fram í maí mánuði 2021 í kjölfar breyttrar stefnu heilbrigðisyfirvalda um notkun hraðprófa í stað PCR-prófa vegna brottfarar frá landinu. Voru kaupin ákveðin á fjarfundi fulltrúa HH, Heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands þann 18. maí sl. Ákvörðun um kaupin var tekin á grundvelli verðupplýsinga er bárust í kjölfar verðfyrirspurnar HH til þeirra þriggja fyrirtækja sem á þeim tíma seldu hraðpróf sem samþykkt höfðu verið af heilbrigðisráðuneytinu en við matið var aðeins litið til nefstrokuprófa. Vísað er til kaupa nr. 1 í töflu um upplýsingar um magn, seljanda og verð. 

Í ágúst mánuði sl. fór smitum ört fjölgandi og óvænt vegna svonefnds Delta afbrigðis veirunnar sem dreifði sér hraðar en áður hafði þekkst. Var sú ákvörðun tekin af hálfu heilbrigðisyfirvalda að hefja notkun hraðprófa innanlands í sóttvarnarskyni og kröfðust aðstæður skjótra viðbragða af hálfu HH. Sendi HH í lok ágúst verðfyrirspurn til þeirra sex fyrirtækja sem seldu hraðpróf sem á þeim tíma höfðu verið samþykkt af heilbrigðisráðuneytinu en um 300.000 stk. var að ræða sem afhenda skyldi um miðjan september. Bárust stofnuninni í kjölfarið verðupplýsingar frá sex fyrirtækjum um sjö tegundir hraðprófa. Var ákvörðun um kaup tekin á grundvelli þeirra upplýsinga og niðurstaðna Veirufræðideildar Landspítala um gæði. Sjá frekari upplýsingar um kaup nr. 2 í töflu. 

Í nóvember sl. skapaðist aukin þörf fyrir notkun hraðprófa og voru þá lagðar inn pantanir þann 5., 10. og 24. nóvember 2021. Við ákvörðun um kaupin var litið til sömu upplýsinga og forsendna og við innkaup í ágúst. Sjá frekari upplýsingar um innkaup nr. 3-5 í töflu. 

Í framangreindum tilfellum var um að ræða bein samningskaup á grundvelli c-liðar 1. mgr. 39. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 (oil. eða innkaupalög). Voru kaupin enda algerlega nauðsynleg vegna yfirstandandi eða aðkallandi neyðarástands af ófyrirsjáanlegum atburðum og var meginreglum innkaupalaga fylgt við kaupin. 

Undirbúningur gagnvirks innkaupakerfis („DPS“) fyrir hraðpróf hófst með Ríkiskaupum í byrjun september 2021 og var þetta í fyrsta skipti sem notast var við innkaupaferilinn hjá Ríkiskaupum. Útboðið var auglýst á útboðsvef Evrópska Efnahagssvæðisins þann 27. september 2021 og fór opnun tilboða fram 30 dögum síðar. Þann 8. nóvember 2021 var fyrirtækjum tilkynnt um hvort þau höfðu verið samþykkt til þátttöku eða ekki. Biðtíma samningsgerðar var lokið þann 19. nóvember 2021 og var þá fyrst heimilt að auglýsa innkaup í kerfinu. 

Birgðastaða hraðprófa hjá stofnuninni var talin fullnægjandi í lok nóvember sl. og því ekki talin þörf á frekari innkaupum. Notkun hraðprófa var þó verulega meiri í desember en gert var ráð fyrir vegna verulegs vaxtar sem varð á faraldrinum svo og kröfu stjórnvalda um framvísun neikvæðs hraðprófs fyrir þátttöku í fjölmennum menningarviðburðum. Eins og fram kom í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu 23. desember voru innanlandstakmarkanir hertar til að sporna við hraðri útbreiðslu smita. Var omicron-afbrigði Kórónuveirunnar þá komið til sögunnar. Haft var eftir sóttvarnalækni að óhjákvæmilegt væri að grípa til hertra sóttvarnaraðgerða eins fljótt og auðið væri áður en neyðarástand skapaðist á sjúkrahúsum og ýmsum innviðum. Til þess að skipuleggja fjöldaviðburði á bilinu 20 til 200 manns þurfti að framvísa hraðprófi. Á sama tíma var HH falið aukið hlutverk við að sjá heilbrigðisstofnunum um landið, hjúkrunarheimilum, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og lögreglu fyrir hraðprófum.  

Af þessum sökum var lagerstaða stofnunarinnar á hraðprófum komin undir hættumörk í lok ársins. Var því tekin ákvörðun um bein innkaup í lok desember og byrjun janúar, sbr. kaup nr. 6-8 í töflu. Var það nauðsynlegt m.a. vegna þess tíma sem það tekur að auglýsa innkaup í DPS kerfinu og fram að vali tilboða og afhendingu, þ.e. 6-8 vikur, en sá tími var helmingi styttri með beinum kaupum. Eftirspurn var mikil á heimsvísu á þessum tíma sem hafði áhrif á getu birgja til skjótrar afhendingar en afhendingartími skipti máli í ljósi birgðastöðu lagers. Við magn innkaupa var m.a. litið til þess að til stóð að auglýsa innkaup í DPS kerfinu síðar í janúar. Að mati HH voru bein samningskaup heimil í þessum tilfellum, sbr. c-liður 1. mgr. 39. gr. oil.

Í kjölfar hertra reglna um samkomutakmarkanir sem settar voru þann 15. janúar sl. er hins vegar útlit fyrir verulegan samdrátt á sýnatökum með hraðprófum. Að auki höfðu þá komið fram efasemdir um næmi hraðprófa gagnvart omicron-afbrigðinu. Að mati HH er því ekki þörf á frekari innkaupum eins og stendur. Verður staðan endurmetin eðli málsins samkvæmt í samræmi við þróun faraldurs og þau áhrif sem ákvarðanir stjórnvalda kunna að hafa. 

Hér í töflu má sjá frekari upplýsingar um innkaup á hraðprófum. Til skýringar varðandi lið nr. 5 og 6 þá voru keypt inn hraðpróf sem auðveldara var að nota fyrir börn og voru sérstaklega ætluð til notkunar fyrir sýnatökur hjá börnum.