Meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum.

Mynd af frétt Meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum.
25.11.2021

Hjá heilsugæslunni um allt land er verið að innleiða foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum. Meðferðin er nú þegar í boði á næstum öllum heilsugæslustöðvunum okkar. Heimilislæknar vísa til sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og fyrsta skrefið er því að panta tíma hjá lækni.

Meðferðin gengur út á að kenna foreldrum aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) til að nota í daglegu lífi barnsins og hjálpa því þannig að komast yfir kvíðavandann. Hugmyndin byggist á að foreldrar séu best til þess fallnir að styðja barnið þar sem þeir eru oftast með barninu á erfiðum tímum þegar kvíðin kemur fram. 

Rannsóknir gefa til kynna að allt að 30% einstaklinga muni á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni þróa með sér kvíða sem verður það mikill að hann hindrar eða skerðir verulega daglegt líf einstaklingsins. Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. Það getur skipt sköpum að grípa snemma inn í og veita börnum, sem stríða við kvíða, stuðning til að draga úr hættu á að vandinn þróist á verri veg. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þessi meðferð er hagkvæm og mælist jafn árangursrík og aðrar HAM meðferðir sem krefjast mun lengri meðferðartíma.. 

Samhliða innleiðingunni var þýdd bókin „Hjálp fyrir kvíðin börn – handbók fyrir foreldra“ sem er fáanleg í bókaverslunum. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu stóð fyrir þýðingu bókarinnar með styrk frá Lýðheilsusjóði og embætti landlæknis, 

Bókin nýtist foreldrum kvíðinna barna hvort sem þau eru í meðferð eða ekki. Með útgáfu bókar og innleiðingar meðferðar í heilsugæslu eykst aðgengi foreldra og barna að árangursríkri kvíðameðferð.  

Sjá nánar í frétt Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu: Foreldramiðuð kvíðameðferð - Hjálp fyrir kvíðin börn