Leghálsskimanir

Mynd af frétt Leghálsskimanir
01.07.2021

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins greinir frá eftirfarandi í samráði við heilbrigðisráðuneytið og Landspítala:

Undanfarnar vikur hafa fulltrúar Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisráðuneytis rætt hugsanlegan flutning á rannsókn leghálssýna. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun nú óska eftir samtali við Landspítala að hefja undirbúning á að rannsóknir á leghálssýnum verði fluttar til Landspítalans.

Ákörðunin byggist á því að Landspítali telur sig nú geta sinnt rannsóknunum en einnig til að koma til móts við athugasemdir fagaðila og almennings. 

Áður en af flutningi verður er mikilvægt að öllum undirbúningi sé lokið og öllum nauðsynlegum forsendum fullnægt, hvort sem er HPV mælingar eða skoðun frumusýna. 

Embætti landlæknis hefur metið forsendur flutnings og bent á hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að Landspítali geti tekið að sér rannsóknir leghálssýna. Undirbúningur flutnings mun taka mið af forsendum og skilyrðum EL. 

Flutningur rannsókna leghálssýna verður unninn í samráði við helstu aðila sem koma að skimun leghálssýna, svo sem Landspítali og sérfræðinga í kvensjúkdómum. 

Lögð er áhersla á að skimunarskrá verði tilbúin til notkunar enda skimunarskrá mikilvæg og lykilatriði við allar skimanir.

Undirbúningur að flutningi hefst nú þegar en krefst tíma því nauðsynlegt er að tryggja gæði og öryggi rannsókna í hvívetna. Stefnt er að því að yfirfærsla geti orðið um áramótin næstkomandi, að því gefnu að unnt reynist að uppfylla allar kröfur fyrir þann tíma.

Reykjavík 1 júlí 2021.

Óskar Reykdalsson forstjóri HH