Nýr framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá HH

Mynd af frétt Nýr framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá HH
16.04.2021

Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, geðlæknir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Þetta er ný staða hjá HH.

Guðlaug hefur víðtæka reynslu í stjórnun og klínískri vinnu. Hún tók sérnám í Svíþjóð í almennum geðlæknum og flutti heim til Íslands árið 1996. Guðlaug hefur að mestu starfað á geðdeild Landspítala frá því hún flutti heim frá Svíþjóð en auk þess hefur hún komið að afleysingum á geðdeild á Akureyri og í Svíþjóð. Hún er klínískur lektor við Háskóla Íslands 2017, og hefur komið mikið að kennslu og handleiðslu nema, bæði á Landspítala og Endurmenntun HÍ.

Guðlaug var í forsvari fyrir átröskunarteymi geðdeildar frá árinu 2006 en hætti þar árið 2019. Á þeim tíma vann hún einnig í gæðamálum og var formaður gæðaráðs geðdeildar árin 2010 - 2014.  Frá árinu 2020 hefur hún starfað sem yfirlæknir á fíknigeðdeild Landspítala. Þá hefur hún samhliða starfi sínu á LSH rekið læknastofu frá árinu 1997 með hléum og hefur frá árinu 2017 rekið læknastofu á Höfða.

Við bjóðum Guðlaugu Unni velkomna til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.