Skimun fyrir leghálskrabbameini – spurningum kvenna svarað

Mynd af frétt Skimun fyrir leghálskrabbameini – spurningum kvenna svarað
26.02.2021

Íslensk heilbrigðisþjónusta stendur saman að baki vandasamri yfirfærslu margvíslegra verkefna frá Krabbameinsfélagi Íslands (KÍ) yfir til Heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Yfirfærslan hefur því miður ekki verið hnökralaus en hér svörum við algengustu spurningum kvenna varðandi skimanir fyrir leghálskrabbameini.

Á netspjalli á heilsuvera.is er boðið upp á sérstaka svarþjónustu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum.

Nánari upplýsingar um skimunina eru á síðum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hér á vefnum.

Engin svör eru týnd og konur fá niðurstöður inn á island.is eins og áður

Upplýsingar úr gagnagrunni Krabbameinsfélags Íslands eru frá ársbyrjun 2021 á forsjá Embætti landlæknis. Allar upplýsingar um fyrri skimanir og niðurstöður eru skráðar í skimunarskrá Embættis landlæknis.  Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hefur aðgang að skimunarskrá til að sinna til sínu hlutverki m.a. varðandi boðanir. Engin gömul svör eru týnd
Í dag fá allar konur niðurstöður úr skimun á island.is sem er sama fyrirkomulag og KÍ notaði. Jafnframt fá allar konur sem áttu sýni í pappakössum frá KÍ send bréf um niðurstöður og símtal ef niðurstöður eru óeðlilegar. 

Sýni sem KÍ tók fyrir áramót

Öll sýnin sem KÍ tók eru skoðuð með tilliti til HPV veiru. Öllum konum sem eru HPV jákvæðar er boðin ný sýnataka. Öllum konum sem eru  HPV neikvæðar verður boðin ný sýnataka ef þær eru í eftirliti vegna fyrri frumubreytinga eða keiluskurðar. 

Engin sýni sýni hafa týnst og niðurstöður eru annað hvort komnar inn á island.is eða væntanlegar á næstu dögum

Bætt aðgengi í nærumhverfi og mun ódýrara fyrir konur

Konum býðst nú skimun fyrir leghálskrabbameini á öllum heilsugæslustöðvum landsins og aðeins er greitt 500 kr. komugjald fyrir þjónustuna. Nú er verið að boða konur miðað aldur og fyrri sögu.
Leghálssýnin eru tekin af ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun. Þetta hefur gengið mjög vel.

Þjónustan er persónuleg og konur afklæðast inn á skoðunarstofunni þar sem þær eru einar með ljósmóðurinni eða hjúkrunarfræðingnum sem tekur sýnið. 

Leghálssýni hafa verið tekin á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni í nokkur ár með góðum árangri. Aðkoma kvensjúkdómalækna á stofum að sýnatöku er óbreytt. Þau sýni eru send á rannsóknarstofuna með öðrum sýnum.  

Hægt að bóka tíma með litlum fyrirvara og nóg af lausum tímum

Hægt er að bóka tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á Heilsuvera.is eða hringja í viðkomandi heilsugæslustöð. 

Þegar þetta er skrifað er laust á flestum heilsugæslustöðvum með viku fyrirvara og á öllum með tveggja vikna fyrirvara.

Styttri svartími og áætlað að öll svör berist innan fjögurra vikna

Samkvæmt samningi við Hvidovre sjúkrahúsið verður öllum leghálssýnum svarað innan þriggja vikna. Reikna má með að niðurstaða verði aðgengileg konum á www.island.is. innan mánaðar frá því sýnið var móttekið af rannsóknarstofunni.

Sýni tekin á sama hátt og áður en tvær rannsóknaraðferðir

Notast verður við tvær rannsóknaraðferðir við skimun fyrir krabbameini í leghálsi. Hefðbundin frumurannsókn og HPV greining. Báðar rannsóknaraðferðir eru vel reyndar og góðar aðferðir til að skima fyrir leghálskrabbameini. 

Báðar aðferðirnar byggjast á því að frumusýni er tekið frá leghálsinum. Notaður er mjúkur bursti. Mismunurinn felst þannig ekki í því hvernig sýnið er tekið heldur hvernig það er rannsakað.

Hefðbundin frumurannsókn er huglæg rannsóknaraðferð og byggist á því að sérhæfður frumurannsakandi rannsakar frumusýni í smásjá. Mælt er með þessari aðferð hjá konum á aldrinum 23-29 ára. 

HPV greining er hlutlæg rannsóknaraðferð sem greinir hvort HPV veirur eru í leghálssýninu. Næmi rannsóknarinnar er um 95% sem leiðir af sér að mælt er með leghálsskimun á fimm ára fresti hjá konum á aldrinum 30-64 ára. 

Niðurstöður fjölþjóðlegra rannsókna hafa sýnt að hefðbundin frumurannsókn á þriggja ára fresti og HPV greining á fimm ára fresti eru jafn árangursríkar aðferðir til að skima fyrir krabbameini í leghálsi.  

HPV frumuskimun finnur meira en hefðbundin frumurannsókn

Samkvæmt skimunarleiðbeiningum Embættis landlæknis var tekin upp HPV frumuskimun hér á landi í aldurshópnum 30-64 ára 1. janúar 2021 en rannsóknin minnkar áhættu á leghálskrabbameini miðað við hefðbundna frumurannsókn. 

Ástæða þess að ekki er enn þá mælt með HPV frumuskimun hjá konum yngri en 30 ára er hátt algengi HPV sýkinga í þessum aldurshópi. Það myndi valda aukinni tíðni falskt jákvæðra niðurstaðna og auka óþarfa eftirlit því ekki allar HPV sýkingar valda frumubreytingum. Um 90% allra HPV sýkinga hverfa á 2-3 árum.  

Stefnt er að því að sjálftökupróf verði hluti af skimun hér á landi síðar á árinu. 

Rannsóknarstofan

Ekki var talið æskilegt að aðskilja þessar rannsóknir, mæla HPV á einni rannsóknarstofu, og frumurannsókn á annarri. Öll sýni eru rannsökuð á sömu rannsóknarstofunni. 

Beintenging við rannsóknarstofuna er hjá Samhæfingarstöðinni, bæði varðandi sýnatökur, merkingar, niðurstöður og annað.    

Síðar á árinu verða niðurstöður aðgengilegar inn á heilsuvera.is. Þar geta konur séð niðurstöður og hvenær áætlað er að næsta skimun verði.