Hvaða aðferðir virka í uppeldi?

Mynd af frétt Hvaða aðferðir virka í uppeldi?
25.02.2021

Það er mikil ábyrgð að vera foreldri og ala upp börn. Þótt allir vilji börnum sínum það besta þarf líka að kunna góðar uppeldisaðferðir – aðferðir sem skila árangri og byggjast á vísindaþekkingu og jákvæðri nálgun. En það er ekki sjálfgefið að uppeldið gangi hnökralaust og eðlilegt að þurfa leiðsögn eða ráðgjöf.

Samvinna og markmið
Barnauppeldi er mjög gefandi verkefni, en það er líka krefjandi og tekur tíma og orku. Best er að foreldrar/uppalendur tali saman um hvernig þeir vilja hafa uppeldið, frekar en að láta hlutina ráðast þangað til það koma upp vandamál. Foreldrar sem vilja til dæmis að börnin verði sjálfsörugg, hafi góða félagsfærni, eigi vini og geti sinnt áhugamálum þurfa að setja sér þessi markmið og vinna að þeim jafnt og þétt.

Foreldrar eru fyrirmyndir
Þótt allir hafi sín sérstöku persónueinkenni hafa foreldrar mikil áhrif á hvernig manneskjur börn þeirra verða. Hegðun sem slík er nefnilega ekki meðfædd heldur lærð og börn læra mikið af því að herma eftir. Þar sem foreldrarnir eru mikilvægasta fyrirmyndin um hvernig á að haga sér þýðir þetta að þeir þurfa að vera meðvitaðir um hvað þeir gera og segja fyrir framan börnin. Börnin fylgjast nefnilega stöðugt með og hafa augu og eyru opin, þótt ekki sé verið að tala beint við þau.

Kenna hegðun
Það er nauðsynlegt að kenna börnum hegðun sem foreldrar vilja að þau kunni og sýni. Við getum ekki ætlast til að börn læri „góða“ hegðun sjálfkrafa. Við þurfum að ákveða hvaða hegðun okkur þykir æskileg og kenna börnunum hana á markvissan hátt. Með því að sýna þeim hegðunina, gefa bein fyrirmæli og leiðbeiningar og leyfa börnunum að æfa sig. Svo þarf að hrósa þegar vel gengur, en líka fyrir að reyna þótt það takist ekki allt strax.

Jákvæð svörun
Rannsóknir sýna að jákvæð umbun virkar mun betur en skammir, tuð og refsingar. Því er gott ráð fyrir foreldra að reyna að styrkja jákvæða hegðun sem mest og hunsa neikvæða. Vissa hegðun er þó ekki hægt að hunsa eins og t.d. þegar börn meiða aðra eða skemma hluti. Þá getur þurft að beita vægum viðurlögum svo sem að fjarlægja hlutinn eða færa barnið úr aðstæðunum. Ef foreldrar telja einhvers konar viðurlög nauðsynleg er best að skoða málin vel og leita ráða hjá fagaðilum sem til þekkja.

Grípa börn góð
Foreldrar þurfa að passa að missa ekki af þegar börnin gera eitthvað jákvætt og æskilegt. Þetta kallast „að grípa börnin góð“. En það er ákveðin tilhneiging til að hunsa óvart æskilega hegðun og taka frekar eftir og bregðast við óæskilegri hegðun. Þetta er skiljanlegt því ef barnið er rólegt að dunda sér er freistandi að láta það eiga sig og trufla það ekki. En þá er verið að missa af mikilvægu tækifæri til að kenna barninu og ýta undir æskilega hegðun. Auðvitað á ekki stöðugt að vera að trufla börn við leik eða aðra æskilega iðju – en það þarf að passa að vera til staðar og veita viðurkenningu með athygli eða hrósi þegar við á.

Skýr skilaboð og rútína
Börn þurfa skýr skilaboð til að skilja hvað fullorðna fólkið meinar og til hvers er ætlast af þeim. Foreldrar þurfa líka að vera samkvæmir sjálfum sér og banna ekki í dag það sem má á morgun. Best er að fyrirmæli til barna séu ekki spurningar! Til að barnið borði morgunmatinn sinn er betra að segja „nú skaltu borða“ en „ætlarðu ekki að fara að borða?“ Þegar barnið á að fara í útiföt segja „nú skaltu fara í skóna, úlpuna“ og þess háttar frekar en að segja „viltu ekki klæða þig?“ Fyrirmæli þurfa líka að segja börnunum hvað við viljum að þau geri, frekar en hvað þau eigi ekki að gera. Ef barnið fiktar mikið í hlutum er betra að segja „nú skaltu passa hendurnar“ frekar en „ekki fikta“. Ef barnið ætlar að rjúka í burtu er betra að segja „nú skaltu ganga og leiða mig“ frekar en „ekki hlaupa“ og svo framvegis.

Það er hjálplegt ef foreldrar koma á rútínu og föstum venjum í hversdagslífinu og hafa hlutina sem mest í sömu röð og á svipuðum tíma. Fyrirsjáanleiki veitir börnum öryggi og sparar þeim óvissu og foreldrum vesen. Þetta á ekki síst við um morgna, matmáls- og háttatíma og auðveldast er að byggja upp rútínu meðan barnið er ungt.

Skjánotkun og uppeldi
Foreldrar þurfa frá upphafi að vera mjög meðvitaðir um eigin skjánotkun í návist barna. Best er að foreldrar reyni að mestu að sleppa því að nota skjái þegar þeir eru að sinna börnunum. Ef við erum upptekin í símanum eða tölvunni finna börnin að við erum ekki fullkomlega til staðar og hlustum ekki nógu vel. Þetta getur haft neikvæð áhrif á mikilvæga tengslamyndun. Of mikil skjánotkun barna er líka að verða vandamál og mikilvægt að setja börnunum mörk um þetta. Muna að foreldrarnir eru mikilvægar fyrirmyndir í þessum efnum eins og öðrum.

Í ung- og smábarnavernd Heilsugæslunnar býðst ráðgjöf og námskeið þar sem nánar er farið í þessi og fleiri uppeldisráð.

Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.