Niðurstöður hafa borist úr nær öllum sýnum sem tekin voru fyrir áramót

Mynd af frétt Niðurstöður hafa borist úr nær öllum sýnum sem tekin voru fyrir áramót
24.02.2021

Það gengur vel að ná upp þeirri seinkun sem orðið hefur við greiningu leghálssýna sem tekin hafa verið hjá konum á Íslandi í forvarnarskini. Í gær bárust þau tíðindi frá rannsóknarstofunni að búið væri að greina nánast öll sýni sem tekin voru í nóvember og desember. Núna eru því aðeins tvær vikur þar til tekist hefur að vinna upp alla seinkun. Töfin sem því miður varð þegar sýnatakan færðist yfir til heilsugæslunnar og samið var við rannsóknarstofu í Danmörku um greiningu sýnanna er einungis tímabundin.

Þegar hafa verið póstlögð um 2.300 svarbréf þar sem konunum er gerð grein fyrir niðurstöðu greiningarinnar, og örfá til viðbótar fara í póst næstu daga. Við munum svo á næstu dögum setja okkur í samband við þær konur sem þurfa á frekari skoðun að halda. Öll þessi svör verða sett á island.is fyrir helgi.

Okkur þykir mjög leitt að þessi seinkun hafi valdið óþarfa áhyggjum og erum þess fullviss að þjónustan muni á næstunni verða bæði betri og hraðvirkari en fyrr. 

Leghálsskimun er öflug forvörn gegn krabbameini. Einfaldast er að panta sér tíma á Mínum síðum á heilsuvera.is en jafnframt er hægt að hringja í heilsugæsluna um allt land og panta tíma. Þess má geta að undanfarin 10 ár hefur öllum 12 ára stúlkum boðist bólusetning gegn leghálskrabbameini, sem orsakast nánast alltaf af HPV veirusýkingu. Við bindum vonir við að tíðni þessa krabbameins muni í kjölfarið lækka en þangað til er skimun besta forvörnin.

Við biðjum alla þá sem hafa haft óþægindi af þessum töfum afsökunar.