Hver er sinnar heilsu smiður!

Mynd af frétt Hver er sinnar heilsu smiður!
11.02.2021

Í síðustu viku horfði ég á Sigurð Guðmundsson, fyrrverandi landlækni, í frábæru sjónvarpsviðtali segja frá reynslu sinni í Malaví, þar sem heilbrigðisvandamálum og lausnum á þeim var eilítið öðruvísi háttað en í okkar litla en auðuga eyríki. Það er ekki víst að „hver er sinnar heilsu smiður“ eigi jafnvel við í Malaví og hjá okkur þar sem stór hluti af okkar heilbrigðisvandamálum er lífsstílstengdur.

Lífsviðhorf hafa áhrif á heilsuna

Mín reynsla eftir 38 ár sem læknir er að almennt lífsviðhorf hvers og eins hefur mikil áhrif á hvernig þeim gengur að eiga við hverja heilbrigðisvá sem að þeim steðjar og þar tel ég almenna jákvæðni til lífsins og fólks í kringum sig einn sterkasta þáttinn í velgengni í baráttunni við vágestinn og sennilega á það við að einhverju leyti alls staðar.

Meðferðarheldni er annar mjög sterkur áhrifaþáttur og ekki síst í baráttu við okkar lífsstílstengdu heilbrigðisvandamál í hinum „þróaða“ heimi, þar sem tróna á toppnum stóræðasjúkdómar í hjarta, heila og útæðum, ásamt sykursýki og öðrum áhættuþáttum þessu tengdum.

Þegar við skoðum nánar, þá er meðferðarheldni við langtímalyfjameðferð u.þ.b. 50%, skammtímalyfjameðferð um 70-80% og lífsstílsbreytingar um 20-30%! Botninum nær þó vikuleg beinþynningarmeðferð í töfluformi eða heil 16%.

Bretarnir hafa áttað sig á að þetta er stórt og dýrt vandamál og rétt fyrir aldamótin tóku heilbrigðisyfirvöld höndum saman með breska konunglega lyfjafræðingafélaginu og settu af stað verkefni til að reyna að skilja betur hvað lægi hér að baki og hvernig best væri tekið á þessu. Niðurstaðan var „From Compliance to Concordance“. Lykilorðin voru jafningjar og samvinna! Áherslur á að upplýsa viðkomandi svo hann/hún geti tekið upplýsta ákvörðun um sína meðhöndlun í samvinnu við lækninn. Niðurstaðan var og er sem sagt að:

Sjúklingurinn er auðvitað mikilvægasti meðferðaraðilinn!

Ef við fáum skjólstæðinginn ekki með okkur í slaginn er stríðið tapað!

Eitt af mikilvægustu verkefnum okkar í heilsugæslunni er að virkja skjólstæðinga okkar til þátttöku í eigin meðferð og þannig ýta undir sjálfseflingu og árangursríkari meðferð. Vonandi tekst okkur þannig saman að auka lífsgæði viðkomandi bæði til skemmri og lengri tíma.

Það hefur verið mikil áhersla á hátæknilækningar alllengi, enda hafa þær mikil áhrif hér og nú fyrir hvern og einn. Hins vegar er spurning hvort lágtæknilækningar og þjóðfélagsleg inngrip hafi í raun ekki miklu víðtækari og langvinnari áhrif þegar á heildina er litið.

Aukin áhersla heilsugæslunnar á lífsstíl

Nærtækasta dæmið fyrir okkur er auðvitað inngrip og einfaldar ráðleggingar sóttvarnalæknis í tengslum við Covid-19, sem hafa ekki bara haft jákvæð áhrif á dreifingu Covid-19 heldur líka á aðrar sýkingar og mikið minnkaða sýklalyfjanotkun. Svo ekki sé minnst á gífurlega jákvæð áhrif bólusetninga almennt á heilbrigði alls heimsins. Annað dæmi er bann við reykingum á veitingastöðum og opinberum stöðum 2007 , sem á örfáum vikum fækkaði hjartaáföllum um 17-19% bæði hjá reykingamönnum og hjá þeim sem ekki reyktu (óbeinar reykingar). Með áherslu heilsugæslunnar á lífsstíl og tengdar móttökur, þar sem lengst eru komnar sykursýkismóttökur, er vonandi að lágtæknilækningar með áherslu á m.a. meðferðarheldni fari að hasla sér frekari völl hér á landi.

Ráðleggingar um heilbrigðan lífsstíl, næringu og hreyfingu er að finna bæði á heilsuvera.is og á heimasíðu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.


Hörður Björnsson svæðisstjóri og fagstjóri lækninga í Heilsugæslunni Miðbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.