Sólarvítamínið er líkamanum nauðsynlegt

Mynd af frétt Sólarvítamínið er líkamanum nauðsynlegt
04.02.2021

D-vítamín er stundum nefnt sólarvítamínið og ekki að ástæðulausu. Útfjólubláir geislar sólarinnar hjálpa húðinni að framleiða forstig D-vítamíns sem breytist síðan í virkt D-vítamín í líkamanum. Undir venjulegum kringumstæðum fær líkaminn 90% af sínu D-vítamíni á þennan hátt.

Á Íslandi er það eingöngu um hásumarið sem geislar sólarinnar geta hjálpað til við framleiðslu D-vítamíns. Þegar við bætist að oft er lítið um sól á sumrin hér á landi á ekki að koma á óvart að fæstir Íslendingar fá nægjanlegt D-vítamín frá sólinni. Nú á tímum Covid-19 er lítið um ferðalög til landa þar sem sólin er hærra á lofti en hér og fleiri sólardagar þannig að þeir sem áður hlóðu upp D-vítamíni með útiveru í sól erlendis geta það ekki í dag.

Taka eina 1.000 eininga töflu daglega

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að stór hluti Íslendinga er með lægra D-vítamín í blóði en embætti landlæknis telur æskilegt. Þannig sýnir rannsókn sem var birt í Læknablaðinu á síðasta ári að um það bil 60% barna og unglinga á aldrinum 7-17 ára eru á hverjum tíma með lægra D-vítamín en æskilegt er. Eldri rannsókn sýnir að börn við 12 mánaða aldur eru með mun hærra D-vítamín í blóði og engin þörf á að hækka þau gildi. Foreldrar virðast þannig vera duglegir við að gefa börnum sínum D-vítamín á meðan þau eru í ungbarnavernd en af einhverjum ástæðum hætta margir foreldrar að gefa börnum D-vítamín á grunnskólaaldri þrátt fyrir að embætti landlæknis ráðleggi öllum að taka D-vítamín.

Á nýafstöðnum Læknadögum var haldið málþing um D-vítamín. Þar kom fram að einföld leið til að fá nægjanlegt D-vítamín fyrir þá sem ekki taka lýsi eða aðra D-vítamíngjafa sé að kaupa D-vítamíntöflur í næstu verslun og taka eina 1.000 eininga töflu daglega. Þetta er aðeins hærri skammtur en embætti landlæknis ráðleggur en langt fyrir neðan þá skammta sem geta valdið skaða. Það kom einnig fram að engin þörf er fyrir fríska einstaklinga að mæla D-vítamín í blóði – það eykur kostnað en skilar litlum ávinningi fyrir heilbrigðiskerfið. Það eiga einfaldlega allir að taka D-vítamín. Það er í lagi að taka D-vítamín einu sinni í viku en að taka þá sjö sinnum meira en ráðlagðan dagskammt.

Fækka öndunarfærasýkingum og minnka líkur á krabbameini

Nú eru komin 100 ár síðan sýnt var fram á að lýsi með sínu D-vítamíni geti komið í veg fyrir beinkröm og sé gott fyrir beinheilsu. Nýrri rannsóknir sýna að sólarvítamínið hefur áhrif á fleira og ef þú hefur nægjanlegt D-vítamín má sennilega fækka öndunarfærasýkingum og minnka líkur á að deyja úr krabbameini. Einnig eru vísbendingar um að það geti valdið vægari einkennum hjá þeim sem smitast af Covid-19.

Styrkur D-vítamíns í blóði er lægri að vetri en sumri og næstu mánuðir eru venjulega með lægstu gildi ársins hjá Íslendingum. Það borgar sig því ekki að bíða eftir sólinni og skorar heilsugæslan á alla sem nú þegar taka ekki D-vítamín að byrja á því. Þetta eru ekki nýjar ráðleggingar en ljóst er að aðeins hluti okkar fer eftir þeim. Mögulega er til mikils að vinna en engu að tapa.

 

Starfsmenn Heilsugæslunnar Seltjarnarnesi og Vesturbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.