Betri tíð kemur með bólusetningu

Mynd af frétt Betri tíð kemur með bólusetningu
21.01.2021

Um þessar mundir eru bólusetningar eitt af aðalumræðuefnunum vegna Covid-19-faraldursins. Sagt hefur verið að bólusetningar séu hornsteinn lýðheilsu enda hafa þær verið hluti af daglegum störfum í heilsugæslu í áratugi. Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bólusetningar hindra einnig farsóttir og draga úr hættulegum afleiðingum smitsjúkdóma. Í sumum tilfellum er mögulegt að útrýma sjúkdómum með öllu. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í sýklunum.

Af hverju er þetta kallað bólusetning?

Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að hinn bólusetti veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn.
Bólusetningar draga nafn sitt af kúabólusetningunni sem breskur læknir, Edward Jenner, benti árið 1796 á að kæmi í veg fyrir bólusótt. Enginn smitsjúkdómur hafði leikið íslensku þjóðina eins grátt og bólusóttin, en hún gerði nánast út af við þjóðina á öldum áður.

Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða til að hefja bólusetningu gegn bólusótt með ákvörðun sem danska heilbrigðisstjórnin tók þegar árið 1802. Það tók þó hátt í 200 ár að útrýma bólusótt úr heiminum með bólusetningum

Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í bólusetningum barna er mikil. Brýnt er að bólusetningar nái til nær allra barna í hverjum árgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi. Hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum næst þegar ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að hindra útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.

Margir barnasjúkdómar sjást afar sjaldan nú orðið. Ungbarnadauði vegna þessara sjúkdóma var þó algengur á 19. öldinni og framan af 20. öldinni. Reynsla í öðrum löndum sýnir að þessir sjúkdómar geta komið aftur ef slakað er á bólusetningum barna.

Herferðir sjaldgæfar

Bólusetningaherferðir á borð við þá sem nú er hafin gegn Covid-19 eru sem betur fer afar sjaldgæfar en margir muna eftir svínaflensunni svokölluðu haustið 2009. Þá var um helmingur þjóðarinnar bólusettur í miklu átaki.

Í mars 2019 komu upp nokkur mislingatilfelli hérlendis. Þá var farið í að bólusetja börn sem voru of ung fyrir reglulega bólusetningu gegn mislingum. Einnig var bólusett fullorðið fólk sem hafði hvorki verið bólusett né fengið mislinga. Í þessu tilviki var hjarðónæmi nógu mikið til að sjúkdómurinn náði sér ekki á strik en margir voru minntir á mikilvægi bólusetninga í nútímalífi.

Meðal annarra reglulegra faraldra síðastliðna öld eru rauðir hundar og lömunarveiki. Eftir að almennar bólusetningar gegn þeim hófust hafa bara einstök tilfelli greinst.

Forgangsröð byggist á reglugerð

Núna er verkefni heilsugæslunnar að bólusetja landsmenn gegn Covid-19. Afar jákvætt er að mikill meirihluti landsmanna hyggst þiggja bólusetningu. Þar sem framboð af bóluefninu er takmarkað er búið að marka stefnu um hverjir eru bólusettir fyrstir. Byrjað er að bólusetja þá sem eru í mestri hættu ef þeir veikjast og þá sem eru í mestri smithættu í störfum sínum. Forgangsröðin byggist á reglugerð heilbrigðisráðherra.

Fyrst er lögð áhersla á að bólusetja aldraða. Byrjað er að bólusetja á hjúkrunarheimilum, sambýlum, dagdvölum og í heimahjúkrun. Síðan verða aðrir aldraðir bólusettir í aldursröð. Forgangshópar vegna sjúkdóma þeirra sem eru yngri en 60 ára byggjast á greiningum í sjúkraskrárkerfum. Kynnt verður vel hverju sinni hvaða hópa er verið að bólusetja. Allir geta treyst því að vera bólusettir þegar röðin kemur að þeim.

 

Höfundur er Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.