Hálkuslys geta haft fyrirboða

Mynd af frétt Hálkuslys geta haft fyrirboða
14.01.2021

Við þekkjum öll frasann um að slysin geri ekki boð á undan sér. Í mörgum tilfellum er það raunin en þegar hálkuslys eru skoðuð á hann þó misvel við. Um leið og frysta tekur að hausti eða vetri birtast okkur fyrirsagnir í fréttamiðlum um fleiri komur á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Þangað leita oft margir tugir og jafnvel yfir 100 manns á einum sólarhring vegna hálkuslysa. Þá eru ótaldir þeir sem leita á aðra staði innan heilbrigðiskerfisins eða þurfa ekki á þjónustu þess að halda. Þessi slys eru algeng og geta hent alla.

Alvarleiki ráði hvert mætt er

Hvert fólki er ráðlagt að leita eftir hálkuslys fer eftir tíma og vikudegi sem og eftir alvarleika.

  • Heilsugæslan er opin alla virka daga frá klukkan 8:00 til 16:00 ásamt síðdegisvakt frá 16:00 til 17:00
  • Læknavaktin er opin alla virka daga frá klukkan 17:00 til 23:30. Helgidaga og almenna frídaga er opnað klukkan 9:00 og er opið til kl. 23:30.
  • Bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi er opin allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Í tilfelli vægra slysa er almenningi ráðlagt að leita á sína heilsugæslustöð eða á Læknavaktina ef slysið verður á ofangreindum afgreiðslutímum. Ef slysið verður hins vegar utan afgreiðslutíma, eða er alvarlegt, er viðeigandi að leita á bráðamóttöku Landspítala.

Högg og aflögun

Sem dæmi um alvarleg slys má nefna eftirfarandi:

  • Höfuðhögg sem leiðir til meðvitundarskerðingar, taugabrottfallseinkenna eða einkenna sem benda til heilahristings, til dæmis höfuðverkur sem hverfur ekki, minnisleysi, ógleði/uppköst, þreyta/ sljóleiki, sjóntruflanir og ójafnvægi.
  • Aflögun á útlimum eða grunur er um beinbrot.
  • Miklir og sárir verkir eða mikil blæðing.
  • Öndunarerfiðleikar.

Algengustu hálkuslysin eru áverkar á útlimum, helst úlnliðum en einnig ökklum, mjöðmum og öxlum, sem eru sem betur fer oftast væg. Áverkarnir geta þó verið svo alvarlegir að framkvæma þurfi skurðaðgerð, þar sem komið er fyrir skrúfum og plötum til að gera brotinu kleift að gróa á réttan hátt.

Góðir skór eru grundvallaratriði

Til rökstuðnings á fyrstu setningu þessarar greinar má nefna nokkur atriði sem fyrirbyggt geta hálkuslys. Mikilvægast er að átta sig á því hvenær hætta er á hálkuslysum og ana ekki út óundirbúin í slæmar aðstæður. Góður skóbúnaður er grundvallaratriði en undir ákveðnum kringumstæðum er ráðlagt að notast við mannbrodda, sérstaklega ef fólk stundar göngur eða hlaup utan alfaraleiðar. Annar búnaður sem kann að koma að góðum notum til þess að bregðast við ef slys ber að er farsími, sem er nauðsynlegur til að geta kallað eftir aðstoð. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri þar sem líkaminn er fljótur að kólna í kyrrstöðu, sérstaklega liggjandi á köldu undirlagi.

Í ljósi síbreytilegs veðurfars hér á landi getur hálka myndast á skömmum tíma sem að hluta til skýrir háa tíðni hálkuslysa á Íslandi. Mikilvægt er að benda á að slík slys henda fólk af báðum kynjum og á öllum aldri. Afleiðingar slíkra slysa kunna að vera alvarlegar, jafnvel viðvarandi einkenni og hamlanir. Því er mikilvægt að kynna sér aðstæður áður en út er haldið og kjósa sér viðeigandi útbúnað til þess að fyrirbyggja hugsanleg slys eins og mögulegt er.

 

Höfundur er Anna Sigurðardóttir, sérnámslæknir á Heilsugæslunni Sólvangi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.