Krabbamein í brjóstum og leghálsi - skimun skilar árangri

Mynd af frétt Krabbamein í brjóstum og leghálsi - skimun skilar árangri
07.01.2021

Þrátt fyrir að þekking á krabbameinum sé alltaf að aukast er enn ekki vitað um ástæður fjölmargra krabbameina en vitað er að lífsstíll og umhverfi hafa áhrif. Með því að hreyfa sig, borða hollan mat, tryggja hæfilega hvíld og huga að líðan má draga úr líkum á krabbameinum og reyndar mörgum öðrum sjúkdómum. Tóbaksnotkun og áfengisneysla eru meðal helstu áhættuþátta krabbameina. Nokkrar tegundir krabbameina er hægt að greina á byrjunarstigi. Með þátttöku í skimun er hægt að bæta batahorfur þótt það komi ekki alltaf í veg fyrir meinið. Þar á meðal eru krabbamein í leghálsi og í brjóstum.

Krabbamein í leghálsi

Ólíkt mörgum öðrum krabbameinum eru orsakir krabbameins í leghálsi þekktar. Um 99% krabbameina í leghálsi orsakast af HPV-veirum sem smitast við kynlíf. Yfir 80% allra sem hafa stundað kynlíf, smitast einhvern tímann á lífsleiðinni. 90% þeirra losna við veiruna innan 2-3 ára en um 10% fá viðvarandi sýkingu og eru í mestri hættu á að fá leghálskrabbamein.
Stúlkum, fæddum 1998 og síðar, hefur verið boðin bólusetning fyrir tveimur tegundum af HPV-veirum sem valda um 70% leghálskrabbameina. Einnig er á markaði bóluefni sem kemur í veg fyrir um 90% leghálskrabbameins. Ekkert bóluefni kemur í veg fyrir sjúkdóminn og því konum ráðlögð skimun þrátt fyrir að hafa verið bólusettar.

Helstu einkenni krabbameins í leghálsi geta verið blæðingar við eða eftir samfarir, milliblæðingar, blæðingar eftir tíðahvörf og óeðlileg útferð frá leggöngum.

Skimun fyrir leghálskrabbameini

Meðalaldur við greiningu leghálskrabbameins er um 46 ár. Regluleg þátttaka í skipulegri skimun getur lækkað dánartíðni um 90% sem er álíka árangursrík heilsuvernd og bólusetningar barna.

Einkennalausum konum á aldursbilinu 23-29 ára er boðin skimun á þriggja ára fresti með hefðbundinni frumurannsókn. Á aldursbilinu 30-64 ára er konum boðin HPV-frumuskimun á fimm ára fresti sem er nýjung hér á landi og samkvæmt alþjóðlegum leiðbeiningum.

Konur sem hafa fengið boðsbréf eru hvattar til að panta tíma í skimun með því að hringja á valda heilsugæslustöð. Þær sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta einnig bókað tíma á Mínum síðum á heilsuvera.is.

Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sem hafa hlotið sérstaka þjálfun taka leghálssýni á heilsugæslustöðvum um land allt. Einungis komugjald er greitt fyrir skimunina.

Krabbamein í brjóstum

 Orsakir krabbameins í brjóstum eru ekki þekktar en nokkrir þættir geta aukið líkur. Þar á meðal eru hækkandi aldur, fjölskyldusaga, áfengisneysla, offita og ýmislegt tengt kvenhormónum.

Fyrstu einkenni brjóstakrabbameins er oft hnútur í brjósti, flestir þeirra eru ekki krabbamein.

Ástæða er til að leita læknis ef kona finnur hnút í brjósti eða holhönd, breytingu á lögun, stærð eða yfirborði brjósts eða útferð úr geirvörtum. Verkur í brjósti er sjaldan einkenni brjóstakrabbameins.

Skimun fyrir brjóstakrabbameini

 Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna hér á landi. Meðalaldur við greiningu er um 62 ár. Regluleg þátttaka í skipulegri skimun getur lækkað dánartíðni um 20%. Núna er einkennalausum konum á aldrinum 50 - 69 ára boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70-74 ára á þriggja ára fresti.

Það eru nýmæli að aldursmörk í skimunina hafa færst frá 40 ára til 50 ára aldurs, í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar. Þegar konur fá boðsbréf eru þær hvattar til að hringja á samhæfingarstöð krabbameinsskimana og panta tíma.

Aukið aðgengi að skimun

Núna um áramótin urðu miklar breytingar á skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi hér á landi. Tilgangur breytinganna er meðal annars að auka aðgengi og þátttöku kvenna með því markmiði að lækka dánartíðni þeirra vegna þessara sjúkdóma.

Hér á vefnum á síðum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana er að finna er að finna frekari upplýsingar um fyrirkomulag skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi.


Höfundar eru Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri í samhæfingarstöð krabbameinsskimana og Kristján Oddsson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga á Heilsugæslunni Hamraborg.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.