Fyrstu bólusetningadagarnir gengu vel

Mynd af frétt Fyrstu bólusetningadagarnir gengu vel
30.12.2020

Bólusetningu gegn COVID-19 á höfuðborgarsvæðinu er lokið í bili. Um 2.200 fengu fyrri skammtinn af bóluefni í gær og í dag.

Langflestir eru íbúar á hjúkrunarheimilum. Starfsmenn heimilanna sáu um að bólusetja þá. Starfsmenn heilsugæslunnar blönduðu bóluefnið og lögreglan flutti tilbúnar sprautur til heimilanna. Allt varð þetta að gera innan tímamarka og vanda hvert handtak.

Einnig voru bólusettir um 330 framlínustarfsmenn í heilsugæslunni. Þetta eru einkum starfsmenn sem eru í opnum móttökum á stöðvunum og starfsmenn í heimahjúkrun. Flestir þeirra hafa komið að sýnatökum undanfarna tíu mánuði og munu halda því áfram um sinn.

Framkvæmdin gekk mjög vel en hún var prufukeyrsla á hvernig hægt er að bólusetja stóran hóp á stuttum tíma. Margir þeirra sem voru bólusettir í gær munu einmitt bólusetja aðra þegar meira bóluefni berst.

Húsnæðið á Suðurlandsbraut virkaði vel. Þangað verður almenningur kallaður í bólusetningu ef ekki kemur mikið af bóluefni í einu.

Bólusetningin er skráð nákvæmlega, m.a. úr hvaða glasi hver og einn er bólusettur. Fimm skammtar náðust úr hverju glasi bóluefnis og bólusetningin fór ekki illa í neinn.

Nú bíðum við hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins tilbúin eftir meira bóluefni. Mjög ánægjulegt er hvað viðhorf Íslendinga gagnvart bóluefninu er jákvætt og það mun hjálpa okkur í framhaldinu.

Við minnum á að seinni bólusetningin er ekki fyrr en eftir þrjár vikur. Viku síðar er talið að fullri virkni sé náð. Það er því ekki fyrr en i lok janúar sem hægt er að slaka á reglum varðandi heimsóknir á hjúkrunarheimili.

 

 

 

Ljósmyndari: Sigurjón Ragnar