Pantið einkennasýnatöku strax og einkenni koma í ljós

Mynd af frétt Pantið einkennasýnatöku strax og einkenni koma í ljós
30.11.2020

Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var gestur á upplýsingafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Embættis landlæknis í morgun.

Ekki veigra sér við að hringja í heilsugæsluna

Hann talaði m.a. um áhrif faraldursins á annað heilbrigði. Vísbendingar séu um andleg áhrif og minna eftirlit með öðrum langvinnum sjúkdómum. Óskar hvetur fólk til að hafa samband við heilsugæsluna út af öðrum veikindum, hvort sem þau eru líkamlegs eða andlegs eðlis.

Ekki bíða með að að bóka einkennasýnatöku
 
Óskar ræddi um einkenni COVID-19 og brýndi fyrir fólki til að bóka strax sýnatöku um leið og það finni fyrir einhverjum þeirra, ekki bíða. Þannig sé hægt að greina fólk fyrr og hefta útbreiðsluna. Það sé samfélagslega mikilvægt að fara strax í sýnatöku jafnvel þó að fólk upplifi sig ekki veikt. 

Aðeins nokkra klukkutíma taki að fá niðurstöðu og fólk þarf því ekki að óttast langa bið. Ekki séu langar biðraðir í sýnatöku.

Hann lagði áherslu á  að um leið og fólk bókar tíma í sýnatöku er það búið að skrá sig í einangrun. Það eigi ekki að vera á meðal fólks í millitíðinni.

Vera heima ef maður er veikur

Einnig minnti Óskar á að þegar maður er veikur, þó að það sé ekki COVID-19, þá er maður heima í nokkra daga því það er svo mikilvægt að dreifa ekki öðrum sýkingum líka.

Undirbúningur bólusetningar hafinn

Óskar sagði að lokum frá því að heilsugæslan er byrjuð að undirbúa verklag fyrir bólusetningu. Það ræðst af því hversu mikið bóluefni berst til landsins. Skipulagið þarf að tryggja öryggi á bólusetningarstað. Ætlunin er að klára bólusetninguna eins fljótt og auðið verður.