Trefjarík fæða vinnur á tregðu

Mynd af frétt Trefjarík fæða vinnur á tregðu
27.11.2020

Manneskjan er flókið fyrirbæri og margt þarf að smella saman svo henni líði vel og hún geti notið lífsins. Allt sem við gerum hefur einhver áhrif á okkur til góðs og heilsueflingar eða í hina áttina. Svefn, mataræði, hreyfing, samskipti við aðra og ótalmargt fleira skiptir máli. Líka hvernig við hugsum, er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Góðu fréttirnar eru þær að við getum sjálf haft mikil áhrif á heilsu okkar og líðan með hegðun okkar.

Hægðatregða er algengt vandamál bæði hjá börnum og fullorðnum. Það er ef til vill ekki spennandi umræðuefni svona korter fyrir aðventu að ræða hægðatregðu en aðventan og jól eru einmitt sá tími sem við viljum geta notið þess að gera vel við okkur og þá er ekki verra að hafa meltinguna í góðu lagi.

Það er einstaklingsbundið hversu oft fólk hefur hægðir. Sumir hafa hægðir nokkrum sinnum á dag en aðrir nokkrum sinnum í viku.

Verkir og þaninn kviður

Við tölum um hægðatregðu þegar hægðalosun er óeðlileg og erfið. Fólk þarf að rembast mikið til að koma frá sér hægðum og gjarnan fylgir sú tilfinning að ekki sé um fullkomna tæmingu að ræða. Sumir finna til kviðverkja og fá þaninn kvið. Ef hægðatregða hefur verið viðarandi er rétt að leita læknis sem greinir vandann og metur framhald.

Orsakir hægðatregðu geta verið margvíslegar. Nefna má skort á trefjum í fæðunni, litla hreyfingu, ónóga vökvainntekt, streitu, kvíða, þunglyndi, aukaverkanir lyfja og að fólk sinnir ekki þörfinni fyrir að hafa hægðir þegar hún kemur. Þar sem hreyfingar í görnunum minnka þegar líður á meðgöngu er hægðatregða algeng á síðari hluta meðgöngu og fyrst eftir fæðingu.

Þeir sem taka lyf að staðaldri ættu að lesa vel fylgiseðla lyfjanna til að ganga úr skugga um hvort þau geti valdið hægðatregðu og bregðast við ef vart verður við slíkt. Til dæmis er um að ræða lyf sem innihalda kódín eða morfín, járn, sum geðlyf, blóðþrýstingslyf og parkinsonlyf.

Hvað get ég gert?

  • Auka neyslu trefjaríkrar fæðu, s.s. grænmetis, ávaxta og heilkorns.
  • Mögulega neyta trefjaviðbótar svo sem Metamucil eða Husk.
  • Drekka vatn, 1-2 lítra daglega. Ristillinn hefur meðal annars það hlutverk að draga vökva úr fæðusúpunni og ef líkamann vantar vökva tekur hann allan þann vökva sem hann getur og hægðirnar verða harðar.
  • Auka hreyfingu, dagleg hreyfing í að minnsta kosti 30 mín.
  • Fara reglulega á salerni og alltaf þegar þörf fyrir hægðalosun gerir vart við sig. Þarmahreyfingar aukast eftir máltíðir og eru virkastar á morgnana.
  • Hjálplegt getur verið að setja lágan koll undir fæturna þegar setið er á salerninu.
  • Draga úr neyslu fæðu sem eykur hægðatregðu, s.s. mjólkurafurða, hvíts hveitis, hvítra hrísgrjóna og bláberja.
  • Velja frekar fæðutegundir sem vinna á móti hægðatregðu, s.s. sveskjur, kíví, rúsínur, rauðrófusafa, hörfræ og trefjaríka fæðu.


Ef ofangreind ráð duga ekki má reyna hægðalyf sem fást án lyfseðils í apóteki og getur starfsfólks apóteka veitt ráðgjöf.

Leita til læknis ef þú léttist

Leitaðu til heilsugæslunnar ef þér tekst ekki að losna við hægðatregðuna með þessum ráðum. Einnig ef blóð er í hægðum, þú hefur kviðverki eða kviðurinn verður skyndilega harður. Ef skyndilega verður breyting á útliti og formi hægða án skýringa eða þú léttist án þess að vera að reyna að losa þig við kílóin ætti einnig að leita til læknis.

Á heilsuvera.is geturðu lesið nánar um áhrifaþætti heilbrigðis. Þú getur skráð þig inn á mínar síður til að senda heilsugæslunni skilaboð eða rætt við hjúkrunarfræðing á netspjallinu heilsuvera.is sem er opið frá 8 til 22.


Höfundur er Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.