Eldra fólk og sjálfskipuð sóttkví

Mynd af frétt Eldra fólk og sjálfskipuð sóttkví
29.10.2020
Nú eru um 9 mánuðir liðnir síðan fyrsta tilfellið af COVID-19 greindist hér á landi. Margir hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví meira eða minna allan þennan tíma. Eldra fólk og raunar margir fleiri gera það sem hægt er til að forðast smit. Mikilvægt er að hlúa vel að líðan sinni. Hvernig við hugsum, nærumst og hreyfum okkur skiptir allt máli fyrir góða heilsu og sterkt ónæmiskerfi. Að leita sér læknishjálpar ef svo ber undir má heldur aldrei sitja á hakanum. 

Einangrun reynir á lunderni
 
Einangrun í langan tíma reynir á hugsanir okkar og lunderni. Hún getur valdið streitu, kvíða og margs konar áhyggjum. Jákvæð viðhorf og bjartsýni eru verndandi þættir. Faraldurinn mun taka enda, lífið færast í eðlilegra horf aftur. Daglega reynir á færni í að takast á við áður óþekktar áskoranir lífsins og aðlagast breytilegum aðstæðum, hvort tveggja mikilvægir eiginleikar í góðri geðheilsu. Einmanaleiki meðal aldraðra er vaxandi heilsufarsleg hætta, orsakirnar flóknar og meðferð vandasöm. Því miður hefur ógnin aukist verulega undanfarið. Það reynir á okkur öll að hjálpa til við að draga úr þessari vondu tilfinningu hjá þeim sem hana hafa. Samhygð og umhyggja endurspegla manneskjulegt samfélag. 

Góð næring styrkir ónæmiskerfið

Í fábreytilegri sóttkví er hætt við að matarvenjur fari úr skorðum. Matarlyst breytist við að borða alltaf í einrúmi, minna verður um búðarferðir og maturinn einhæfari. Afleiðingin verður verri næring með almennri þreytu og vanlíðan, auk ýmissa annarra kvilla. Ónæmiskerfið, hin náttúrulega vörn okkar gegn veirum, skerðist. Fjölbreytt og góð fæða tryggir inntöku mikilvægra næringarefna. Sérstaklega er þýðingarmikið að neyta próteinríkra matvara, má þar nefna fisk, kjöt, egg, mjólkurvörur, baunir eða linsur. Nauðsynlegt er líka að fá nægan vökva yfir daginn. Kaffi telst með en drykkja fram á kvöld getur valdið svefntruflunum. Huga þarf sérstaklega að D-vítamíni, í skammdegi er ráðlagt að taka það inn sem fæðubótarefni og jafnvel allt árið.
 
Hreyfing er nauðsyn
 
Tap á vöðvamassa fylgir aldri og það getur orðið umtalsvert við langvarandi kyrrsetu. Vöðvarýrnunin leiðir til kraftleysis og verkja. Öllu eldra fólki er ráðlögð reglubundin hreyfing, það er aldrei of seint að byrja. Dagleg rútína með blöndu af jafnvægis-, styrktar- og þolæfingum er öflug hreyfingaráætlun sem vel er hægt að ástunda í sóttkví. Einfaldar jafnvægisæfingar heima í stofu geta aukið styrk í hrygg og fótum, örvað jafnvægisskynið og dregið úr fallhættu. Styrktaræfingar með léttum lóðum í sitjandi stöðu auka kraft í útlimum. 4-6 klukkustunda þolæfing á viku vinnur gegn svefnerfiðleikum og mörgu öðru, það samsvarar um hálftíma göngutúr á dag. Hér gildir að finna hóflega hreyfingu við hæfi, nota ímyndunarafl og þrautseigju.
 
Hafið samband

Það er áskorun að hlúa vel að líðan sinni í sjálfskipaðri sóttkví. Ýmis einkenni og undirliggjandi sjúkdómar geta truflað. Þá getur verið betra að leita aðstoðar hjá fagaðilum. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi verið fyrirferðarmikill innan heilsugæslunnar er mikilvægt að sinna áfram öðrum vandamálum. Fólk á alltaf að geta leitað til heilsugæslunnar. Til dæmis er hægt að hringja og ráðfæra sig við hjúkrunarfræðinga eða eiga í samskiptum í gegnum tölvu á mínum síðum á heilsuvera.is . Á þeirri vefsíðu er einnig að finna heilsuráð og leiðbeiningar um líðan, næringu og hreyfingu. 

 

Höfundur er Hafsteinn Freyr Hafsteinsson fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Mjódd.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.