Myndbandið COVID-19 sýnataka

Mynd af frétt Myndbandið COVID-19 sýnataka
06.10.2020

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) og Landspítali tóku höndum saman og gerðu þetta myndband sem inniheldur ítarlegar leiðbeiningar fyrir almenning um sýnatöku vegna Covid-19. Heilsugæslan heldur utan um og skipuleggur þetta ferli frá A til Ö í nánu samstarfi við alla hlutaðeigandi, til dæmis Landspítala, Embætti landlæknis, Íslenska erfðagreiningu og fleiri. Myndbandið er rúmlega 3 mínútur á lengd og er líka í boði með enskum texta.

Myndband með íslensku tali og íslenskum texta

 

Myndbandið með íslensku tali og enskum texta

 

Þegar þú finnur fyrir einkennum Covid-19, til dæmis þurrum hósta, hálssærindum, hita eða beinverkjum, þá getur þú bókað tíma í einkennasýnatöku á heilsuvera.is.

Þegar komið er inn á Heilsuveru, skal skrá sig inn á mínar síður með rafrænum skilríkjum. Á mínum síðum skal smella á COVID-19 hnappinn á vinstri spássíunni og velja „bóka einkennasýnatöku“. Þegar hingað er komið þarf að velja þann stað á landinu sem þú kýst að sækja sýnatökuna. Þegar staðsetning hefur verið valin skal skrá inn netfang og símanúmer og tryggja að það sé rétt. Síðan þarf að merkja við þau einkenni sem eiga við þig og ýta á „senda“. 

Innan 5 mínútna færð þú sms með strikamerkinu og upplýsingum um staðsetningu og tímasetningu sýnatökunnar. Þú getur einnig séð þessar upplýsingar á mínum síðum Heilsuveru undir flipanum „samskipti“.

Ef þú þarft að bóka fyrir barnið þitt sem er yngra en 16 ára, þá ferðu inn á svæði barnsins sem er efst hægra megin á mínum síðum og endurtekur sama ferli. Þeir sem eru 16 ára og eldri þurfa að nota sín eigin rafrænu skilríki.

Allar sýnatökur á höfuðborgarsvæðinu vegna Covid-19 fara fram á Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík. Eina leiðin til þess að komast í sýnatöku þar er að vera með strikamerki.

Þú mætir á Suðurlandsbrautina á þeim tíma sem þú fékkst sendan í sms-i og hefur strikamerkið og skilríki meðferðis. Á Suðurlandsbrautinni eru tveir inngangar.

Hægri inngangurinn er fyrir þá sem eru að koma í seinni sýnatöku á landamærum, en einnig fyrir slembi skimun (eða random sýnatökur) og fyrir þá sem koma í sýnatöku til þess að losna úr sóttkví.

Vinstri inngangurinn er aðeins fyrir einkennasýnatökur. Ef strikamerkið þitt byrjar á EIN þá átt þú að nota þennan inngang. Mæta skal með maska og passa upp á tveggja metra regluna. Maður í hvítum galla tekur á móti þér og skoðar strikamerkið þitt. Ef strikamerkið byrjar á EIN þá sprittar hann á þér hendurnar og hleypir þér inn.

Þegar komið er að sýnatökustaðnum skal hafa strikamerkið tilbúið. Þar tekur starfsmaður á móti þér og skannar inn strikamerkið. Annar starfsmaður vísar þér svo til sætis þar sem sýnatakan fer fram. 
Fyrst er tekið sýni úr hálsi og síðan úr nefkoki. 

Athygli skal vakin á því að einstaklingur er í einangrun frá því að einkennasýnataka er pöntuð og þangað til að neikvæðar niðurstöður liggja fyrir.

Neikvæðar niðurstöður birtast undir hlekknum samskipti á mínum síðum í Heilsuveru. Þú færð einnig sms um að þú eigir skilaboð í Heilsuveru sem þýðir að sýnið sé neikvætt.

Jákvæðar niðurstöður eru alltaf tilkynntar símleiðis.