Mælt með bólusetningu við inflúensu

Mynd af frétt Mælt með bólusetningu við inflúensu
02.10.2020

Nú er kominn sá tími sem inflúensan fer að láta á sér kræla. Hægt er að verjast inflúensunni með árlegri bólusetningu sem gefur um 60-90% vörn gegn sýkingu. Það er því hægt að fá inflúensu þrátt fyrir bólusetningu, en meðal þeirra sem eru bólusettir dregur bólusetningin úr alvarlegum fylgikvillum sýkingarinnar og lækkar dánartíðni. 

Margar rannsóknir styðja bólusetningar við inflúensu. Vitað er að sjúkdómum fækkar við bólusetningar og að við verndum umhverfi okkar, viðkvæma einstaklinga, börn, aðstandendur og vini með því að láta bólusetja okkur.

Áhættuhópar njóti forgangs 

Árleg inflúensa kemur verst niður á eldri kynslóðinni og fólki með undirliggjandi sjúkdóma með auknum fjölda dauðsfalla í kjölfar inflúensunnar vegna alvarlegra fylgikvilla hennar. Fyrir flesta er inflúensan hins vegar óþægileg veikindi sem ganga yfir á nokkrum dögum án alvarlegra afleiðinga. Við mælum eindregið með að láta bólusetja sig gegn inflúensu og sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningu: 

  • Allir 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Þungaðar konur.

Jafnframt er minnt á að þeir sem á þurfa að halda geta í leiðinni fengið bólusetningu gegn lungnabólgu (pneumókokkasýkingu). 

Veiran smitast manna á milli með loftbornu úðasmiti, hósta og hnerra en getur einnig smitast við snertingu. Almennt er flensan mest smitandi á fyrstu 3-4 dögum veikinda en sá sýkti getur byrjað að smita um degi áður en einkenna verður vart. Einkenni byrja oftast mjög snögglega og vara oftast innan við eina viku en í sumum tilfellum geta veikindin varað í allt að tvær vikur. 

Bólusetning besta forvörnin 

Í þungum faraldri eykst álag á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu verður áberandi aukning á fjarvistum vegna veikinda, frá vinnu og skóla. Dæmigerð einkenni inflúensu eru hár hiti, þurr hósti, hálssærindi, beinverkir og höfuðverkur. Þessi einkenni koma oft snögglega. Sjaldgæfari einkenni geta verið ógleði, uppköst eða niðurgangur en þau eru algengari hjá börnum en fullorðnum. Bólusetning gegn inflúensu er ein besta fyrirbyggjandi aðgerðin sem við eigum völ á í dag.

Hvað á ég að gera til að draga úr líkindum á smiti? 

  • Þvoðu hendurnar oft með vatni og sápu.
  • Haltu þig fjarri fólki sem er með inflúensu.
  • Láttu bólusetja þig árlega gegn inflúensu á næstu heilsugæslustöð.

Ef þú ert með inflúensu

  • Drekktu vel af vatni.
  • Taktu hitalækkandi lyf sem þú færð í apóteki.
  • Þolinmæði, það tekur líkamann 1-2 vikur að jafna sig á inflúensu.
  • Haltu þig heima og hvíldu þig.
  • Vertu heima þar til þú hefur verið hitalaus í einn sólarhring án hitalækkandi lyfja. 

Komdu á heilsugæslustöð í bólusetningu því við erum hér fyrir þig. 

Höfundur er Rut Gunnarsdóttir, svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni Hvammi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.