Umburðarlyndi og Covid-19

Mynd af frétt Umburðarlyndi og Covid-19
25.09.2020

Þessa dagana er heimurinn að takast á við mikla aukningu á tilfellum af Covid-19. Ýmsar skerðingar hafa verið settar á hegðun fólks, bæði hérlendis og erlendis, og virðast þær stöðugt vera að breytast. Verkefni okkar núna er að læra að lifa með Covid-19 og reyna að vernda hvert annað gegn smiti með sameiginlegum sóttvörnum. Í því felst að þvo hendur áður en við snertum munn eða andlit, halda líkamlegri fjarlægð við einstaklinga sem við erum ekki í nánum samskiptum við, nota grímu þegar ekki er hægt að viðhalda tilsettri fjarlægð og fara eftir reglum varðandi sóttkví og einangrun. Fyrir suma er þessi breyting auðveld en fyrir aðra erfið. Margir finna fyrir miklum ótta eða kvíða, annars vegar vegna sjálfra sín og hins vegar vegna annarra sem þeir telja vera í áhættuhópi.

Birtingarmyndir ótta

Kvíði, reiði og pirringur eru birtingarmyndir ótta. Þegar við finnum fyrir ótta er okkur eðlislægt að verða reið eða pirruð, allt eftir hversu hrædd við verðum. Foreldri sem horfir á barnið sitt hlaupa hugsunarlaust út á götu óttast að barnið geti slasast eða dáið. Ef barnið kemst áfallalaust til baka eru fyrstu viðbrögð að skamma barnið. Ef barnið hljóp í veg fyrir bíl en bílstjórinn náði að nauðhemla eru fyrstu viðbrögð bílstjórans að reiðast vegna ótta við að hafa getað valdið barninu skaða. Bílstjórinn gæti fengið útrás fyrir reiði sína með því að skamma barnið eða rífast við hvern þann sem er næstur. Ef barnið hins vegar slasast færist reiði foreldrisins á bílstjórann og reiði bílstjórans beinist líklega að honum sjálfum. Hann getur hugsanlega fengið útrás með því að skammast út í yfirvöld, aðstæður á götu og með sjálfsásökunum.

Skammir og harkaleg orð bæta aldrei aðstæður og geta valdið miklu meiri skaða en atburðurinn sjálfur. Ógætileg orð sögð í reiði er erfitt að draga til baka og ef þau falla í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum lifa þau að eilífu. Það sama gildir um smitsjúkdóma eins og Covid-19. Það ætlar sér enginn að smitast og enginn vill smita aðra. Á sama hátt og það er alltaf hægt að verða fyrir og valda skaða í umferðinni, sama hversu vel við pössum okkur, getum við öll smitast af inflúensu, kvefi eða Covid-19. Því er eðlilegt að finna fyrir ótta sem við getum túlkað sem reiði, kvíða eða pirring. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig við tjáum þessar neikvæðu tilfinningar.

Sýnum þolinmæði

Skömm og sjálfsásakanir virðast vera okkur eðlislægar tilfinningar og því er óþarfi og beinlínis skaðlegt að reyna að láta annarri manneskju líða illa með hörðum orðum eða ásökunum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með ýmis úrræði fyrir fullorðna sem glíma við andlega vanlíðan svo sem kvíða, þunglyndi, sjálfsásakanir og reiði. Á heilsugæslum starfa margar stéttir heilbrigðisstarfsmanna sem eru tilbúnir og færir um að veita aðstoð og ráðleggingar. Á netspjalli á heilsuvera.is er hægt að fá ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi frá kl. 9-12 og 13-22 alla virka daga og 10-16 og 19-22 um helgar. Einnig bendum við á efnisflokkinn Líðan á heilsuvera.is. Þar er að finna ýmsan fróðleik varðandi andlega heilsu og líðan.

Aðgát í nærveru sálar

Við hvetjum alla til að hugsa sinn gang, sýna hvert öðru þolinmæði og muna að ekkert okkar er fullkomið. Við gerum öll mistök og þá vonum við að aðrir séu umburðarlyndir og fyrirgefi okkur. Við getum ekki stjórnað öllum aðstæðum en við getum reynt að stjórna viðbrögðum okkar. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, verum góð hvert við annað.

 

Höfundar eru Ingibjörg Guðmundsdóttir og Nichole Katrín Salinas, hjúkrunarfræðingar á göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.