Fyrsti lúsapóstur haustsins

Mynd af frétt Fyrsti lúsapóstur haustsins
10.09.2020

Byrjun haustsins og skólarnir loksins að byrja með tilheyrandi rútínu sem svo mörg börn og foreldrar þrá. En svo kemur pósturinn sem flestir foreldrar „bíða“ eftir. Fyrsti lúsapósturinn frá skólanum! 

Lúsin er lítið skordýr sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sem sníkjudýr í hári á höfði. Lúsin verpir eggjum sem kallast nit. Á sex til tíu dögum klekst nitin út sem á 9-12 dögum þroskast yfir í fullorðna lús. Lúsin er ekki talin bera sjúkdóma og er því skaðlaus. Það geta allir smitast af lús en þó er algengast að börn á aldrinum 3-12 ára smitist.

Nitin er einkenni 

Lúsin sjálf veldur litlum einkennum en egg hennar (nit) geta sést í hárinu. Nitin líkist flösu en ólíkt flösu festist nitin við hárið. Algengt er að nitin sé fyrir aftan eyru og neðan til á hnakka. Algengur misskilningur er að allir finni fyrir kláða þegar þeir hafa smitast af lús. Einn af hverjum þremur fær kláða en hann stafar af ofnæmi gegn munnvatni lúsarinnar sem hún spýtir í hársvörðinn þegar hún sýgur blóð. Þó fá margir kláða bara þegar lúsin er nefnd og í raun er mjög líklegt að margir séu nú þegar farnir að klóra sér bara við það að lesa þetta. Til að greina lús þarf nákvæma skoðun sem best er að gera með því að kemba hárið með lúsakambi. Ef lús finnst, jafnvel bara ein, þarf að veita meðferð.

Meðferðin og kamburinn 

Meðferðin felst í að kemba hárið með góðum lúsakambi og getur þessi meðferð dugað ein og sér ef kembt er samviskusamlega einu sinni á dag í 14 daga. Gott er að kemba blautt hár með hárnæringu í, það gerir lúsinni erfiðara fyrir að hreyfa sig og þannig verður auðveldara að kemba hárið. 

Einnig má nota lúsadrepandi efni samhliða kembingu. Ekki er mælt með notkun ilmolíu sem meðferð við lúsinni og engar rannsóknir sem styðja notkun slíkra efna. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að jurtaseyði og gömul húsráð drepa ekki höfuðlús. 

Á tímum sem þessum hefur þjóðin án efa aldrei verið jafn meðvituð um forvarnir. Besta forvörnin við lús er að fylgjast með hárinu og kemba vikulega. Þannig er komið í veg fyrir að lúsasmit nái fótfestu. Gott getur verið t.d. að hafa ákveðið kvöld vikunnar sem „kembingarkvöld“. Þá er hægt að setja góðan þátt eða mynd í sjónvarpið og hafa það huggulegt meðan á kembingu stendur. Buff hafa reynst vel til að minnka líkur á smiti en þau gera lúsinni erfiðara fyrir að fara frá einum kolli yfir á annan. Best er að börn með sítt hár séu ekki með það slegið í skólanum og gott að minnka sjálfsmyndatökur eða „selfies“ í hóp.

Tilkynna lúsasmit í skóla barnsins 

Lús er tilkynningarskyldur smitsjúkdómur. Ef lús finnst í höfði barns er mikilvægt að láta vita í skóla/leikskóla barnsins svo hægt sé að tilkynna foreldrum annarra barna og hefta þannig útbreiðslu lúsarinnar. Upplýsingar og myndbönd um lúsina, meðferð og fleira má finna á heilsuvera.is og á landlaeknir.is

 

Höfundar eru Anna Lillý Magnúsdóttir, Anna María Guðnadóttir og Sigríður Elísabet Árnadóttir, hjúkrunarfræðingar á Heilsugæslunni Hlíðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.