Andleg heilsa í fangelsum

Mynd af frétt Andleg heilsa í fangelsum
20.08.2020

Geðheilsuteymi fangelsa sinnir geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem afplánar dóma í fangelsum landsins. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hratt af stað metnaðarfullri vinnu um stofnun geðteymis fyrir fangelsi á síðasta ári, 2019, og skilaði sú vinna sér í stofnun geðheilsuteymis fangelsa sem hóf störf í byrjun líðandi árs. Lengi hefur verið kallað eftir þessari þjónustu, ekki síst til að uppfylla evrópska staðla um aðbúnað fólks í fangelsum og aðgengi þeirra að geðheilbrigðisþjónustu.

Í Geðheilsuteymi fangelsa eru geðlæknir, sálfræðingur og tveir geðhjúkrunarfræðingar. Teymið tilheyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er einnig með þrjú geðheilsuteymi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Vandi fólksins er oft flókinn

Rannsóknir á fólki í fangelsum hafa leitt í ljós að sá hópur glímir oft við flókinn samsettan vanda félagslegra erfiðleika og geðheilsuvanda. Áföll og félagslegir erfiðleikar snemma á lífsleiðinni hafa oft búið til kjörlendi geðrænna vandamála á borð við þunglyndi og kvíðaraskanir, áfallastreituröskun, persónuleikaraskanir og fíknisjúkdóma. Taugaþroskaraskanir eins og ADHD og ýmsir námserfiðleikar eru einnig algengari hjá þessum hópi fólks en gerist og gengur í samfélaginu.

Margt af því fólki sem afplánar dóma í fangelsi hefur haft tengsl við geðheilbrigðiskerfið áður en það fékk dóm en hefur gjarnan vegna erfiðrar félagslegrar stöðu (svo sem heimilisleysis, skorts á nauðsynlegum stuðningi) eða vímuefnaneyslu átt erfitt með að nýta sér þá þjónustu sem almenna geðheilbrigðiskerfið getur boðið. Vandinn er því oftar en ekki vítahringur félagslegs vanda, geðræns vanda, fíknisjúkdóma, afbrota og fangelsisdóma. Í afplánun gefst oft betra tækifæri til að meta geðheilsu og þjónustuþörf í samræmi við það. Öll geðmeðferð verður ómarkviss ef ekki er hægt að meta fólk við byrjun meðferðar og veita því viðeigandi eftirfylgd en margir skjólstæðingar geðheilsuteymis fangelsa hafa átt erfitt með að mæta til læknis og sinna meðferð og eftirfylgd úti í samfélaginu. Innan fangelsis gefst mörgum loksins tækifæri til að nýta sér stuðning og úrræði sem eru þar í boði.

Tækifæri til vaxtar og þroska

Á liðnum árum hafa heilbrigðisstarfsmenn innan heilsugæslunnar og Fangelsismálastofnunar sinnt þessum hópi af bestu getu, oft með góðum árangri, en jafnframt kallað eftir meiri liðsauka og sérfræðikunnáttu til að sinna því fólki sem er veikast og með þörf fyrir meiri og eða sérhæfðari þjónustu.

Með stofnun Geðheilsuteymis fangelsa er hægt að tryggja því fólki sem afplánar dóma í fangelsum þá geðheilbrigðisþjónustu sem það á rétt á til jafns við aðra. Með því að bæta geðheilsu fólks er verið að auka lífsgæði fólks, rjúfa vítahringinn og renna styrkari stoðum undir að því takist betur að nýta sér þau úrræði sem í boði eru í samfélaginu þegar afplánun lýkur. Geðheilsuteymi fangelsa er í góðu samstarfi við almenna heilsugæslu, Landspítala, SÁÁ, ýmis grasrótarsamtök og hagsmunasamtök fanga.

Viðhorf til fólks sem hefur afplánað dóma í fangelsi litast stundum af fordómum og vanþekkingu á vanda þessa hóps. Geðheilsuteymi fangelsa vill leggja sitt af mörkum til að fólki verði tekið betur að lokinni afplánun og hafi sömu tækifæri og aðrir til vaxtar og þroska sem þátttakendur í samfélagi. Betrunin fer ekki bara fram í fangelsi eða sérhæfðum úrræðum, samfélagið allt getur verið virkur þátttakandi. Að baki hverrar manneskju í afplánun er fjölskylda; maki, börn, foreldrar og systkini sem vert er að hafa í huga.

Starfsemi teymisins er í stöðugri þróun og mikil verkefni fram undan; bætt aðstaða í fangelsum, eftirfylgd að lokinni afplánun og áframhaldandi endurhæfing.

Höfundar eru starfsmenn Geðheilsuteymis fangelsa: Arndís Vilhjálmsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Elsa Bára Traustadóttir sálfræðingur, Helena Bragadóttir hjúkrunarfræðingur og Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu