Álag og breytt vinnubrögð

Mynd af frétt Álag og breytt vinnubrögð
24.07.2020

Á nokkrum vikum fyrri part ársins gerbreyttist starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heimsfaraldur af skæðri veirusýkingu kallaði á nýja starfshætti, forgangsröðun verkefna, önnur vinnubrögð. Á Íslandi hefur gengið vel að hemja útbreiðslu veirunnar og árangurinn hefur vakið verðskuldaða athygli, þar komu margir að. Starfsfólk heilsugæslunnar hefur staðið í fremstu víglínu með ráðgjöf og sýnatökur hjá fólki með minnsta grun um COVID-19. Ráðgjöf vegna COVID-19 hefur verið mjög umfangsmikil á heilsugæslustöðvum, heilsuveru og síma 1700. Símtöl á hverri heilsugæslustöð skipta tugum og hundruðum á dag og símalistar allra, sér í lagi hjúkrunarfræðinga, þétt bókaðir.


Á hverjum degi eru tekin hundruð sýna úr fólki með væg einkenni frá efri loftvegum eða önnur einkenni sem geta samrýmst sýkingu af kórónuveiru. Meirihluti sýna sem hingað til hefur verið rannsakaður á Landspítalanum, fleiri þúsund sýni, eru tekin af starfsfólki heilsugæslunnar. Vinna í hlífðarbúningi með andlitsgrímur og hanska er hversdagslegt í dag en var áður nánast óþekkt.


Sýna biðlund og skilning

Hefðbundin starfsemi hefur þurft að víkja, en verkefnin hverfa ekki og nú þarf að sinna fjölmörgu sem hefur beðið. Nefna má margvíslega heilsuvernd, ungbarnavernd, mæðravernd, heilsuvernd aldraðra, skólahjúkrun. Í stað viðtala hjá læknum og sálfræðingum komu oft símtöl, það reyndist vel en hentar ekki alltaf. Viðtal við skjólstæðing er og verður mikilvægur þáttur í starfi heilsugæslulæknis. Við sjáum þó nýja tækni svo sem myndsímtöl í heilsuveru sem án efa verður meira nýtt í framtíðinni.

Flæði af upplýsingum hefur verið mjög mikið. Tölvupóstar til starfsfólks heilsugæslunnar skipta tugum ef ekki hundruðum, tíma þarf til að lesa og fara yfir nýjustu tilmæli sóttvarnayfirvalda hverju sinni. Samræma þarf viðbrögð innan starfsstöðvar og milli starfseininga, allir þurfa að fylgjast með og takast á við ný verkefni, oft með mjög litlum fyrirvara.

Við biðjum skjólstæðinga okkar að sýna biðlund og skilning á álagi á starfsfólk. Það reynir á að starfa undir miklu álagi um langan tíma eins og hefur verið reyndin með starfsfólk heilsugæslunnar um allt land.


Einvalalið starfsfólks með fjölþættan bakgrunn

Skimun ferðamanna sem koma til landsins hófst í júní og hefur vaxið hratt en gengið vel en skipulagningin er á ábyrgð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ferðamenn koma víða að, fljúgandi eða siglandi, og bera niður víðs vegar um landið. Öllum þarf að sinna, veita ráðgjöf, taka sýni og tryggja að svarið berist fljótt og vel. Einvalalið starfsfólks með fjölþættan bakgrunn frá mörgum vinnustöðum hefur verið samstíga í að leysa þessa miklu áskorun. Finna lausnir á skömmum tíma. Ekkert hafði verið reynt áður.

Mikilvægt er að starfsfólk heilsugæslunnar fái tíma til að hvílast og jafna sig eftir annasama mánuði. Við notum sumarið til þess, jafnvel með breyttri þjónustu stöðva yfir hásumarið. Þegar haustar verður vonandi hægt að opna stöðvar aftur eins og var með öflugri dagvakt, bráðum erindum sinnt án tímabókunar og opnað fyrir tímabókanir á heilsuvera.is. Til þess að svo verði þurfum við að treysta okkar skjólstæðingum með sóttvarnir. Hringja og fá ráð, ekki koma án þess að hafa samband, ef eru einkenni frá efri loftvegum. Á öllum stöðvum eru einnig maskar og hanskar við innganginn fyrir alla með kvefeinkenni. Gætum að fjarlægð og eigin sóttvörnum. Við viljum hafa gott aðgengi á öllum stöðvum allan daginn en þurfum jafnframt að gæta öryggis okkar starfsfólks.


Aðlagast breyttum tímum

Fátt er eins og það var áður og erfitt er að ráða í framtíðina. Við erum að horfa á breytta tíma, það sem við þekktum sem venjulegt og eðlilegt er það ekki lengur. Hegðun okkar breytist, samskipti og samskiptaform. Við í Heilsugæslunni þurfum að aðlaga okkur breyttum tímum og öðru starfsumhverfi en við erum vön. Það mun án efa takast vel með öflugu starfsfólki og í góðri samvinnu við skjólstæðinga okkar.


Höfundur er Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.