Forvarnir gegn lúsmýi

Mynd af frétt Forvarnir gegn lúsmýi
16.07.2020
Lúsmý hefur náð fótfestu á Íslandi og er til vandræða einkum fyrripart sumars. Flugan er agnarsmá og getur því verið erfitt að greina hana með berum augum. Lúsmý heldur sig þar sem er skjól og skuggi. Það leggst til atlögu að nóttu til og verður fólk því ekki vart við bitin fyrr en kláði og bólga koma fram. Bitin eru ekki hættuleg en geta valdið talsverðum óþægindum sérstaklega ef þau eru mörg.

Í flestum tilfellum getur fólk sjálft meðhöndlað einkennin og ganga þau yfir á nokkrum dögum. Einstaka sinnum geta einkenni þó verið það slæm að fólk þarf að leita sér hjálpar frá heilbrigðisstarfsmanni. 

Til þess að koma í veg fyrir bit er mikilvægt að huga forvörnum. Ýmis ráð geta reynst gagnleg til þess að fyrirbyggja bit af völdum lúsmýs. Þar má til dæmis nefna:

  •          Loka öllum gluggum vel fyrir nóttina og setja þétt flugnanet fyrir glugga til þess að koma í veg fyrir að lúsmý komist inn í híbýli.
  •      Sofa í náttfötum og sokkum til að hylja húðina.
  •      Hafa viftu í gangi að næturlagi til að koma hreyfingu á loftið. Þá getur lúsmýið ekki athafnað sig.
  •      Klæðast langerma bol og síðum buxum í ljósaskiptum.
  •      Bera á sig krem eða úða sem fælir skordýr í burtu. Mælt er með vörum sem innihalda DEET. Slíkar vörur fást í apótekum. Mikilvægt er að hafa í huga að börn eiga ekki að nota vörur sem innihalda meira en 10% DEET.

Ef fólk verður vart við bit eru ýmis ráð sem hægt er að prófa heima til þess að draga úr einkennum.

  •          Kaldir bakstrar minnka bólgur og draga úr óþægindum.
  •       Passa að klóra ekki húðina, það getur aukið hættu á sýkingu.
  •       Parasetamol getur dregið úr verkjum og óþægindum. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um notkun á lyfi.
  •      Væg sterakrem geta dregið úr einkennum. Slík krem fást í apótekum án lyfseðils. Sterakrem eru ekki ætluð til langtímanotkunar eða á stór húðsvæði.
  •      Ofnæmislyf eins og Loretin eða Histasin draga úr bólgu og kláða. Hægt er að fá slík lyf í apótekum án lyfseðils. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um notkun á lyfi.
  •      Ýmis krem og smyrsli sem kæla húðina og draga úr kláða er hægt að nálgast í apótekum.


Ef almenn ráð duga ekki    

Í sumum tilvikum geta bit af völdum lúsmý orðið það slæm að almenn ráð duga ekki. Við alvarlegum ofnæmiseinkennum eins og öndunarerfiðleikum, bólgu á hálsi, svima, hröðum hjartslætti eða meðvitundarskerðingu á strax að leita á bráðamóttöku eða hringja í 112.

Ef bit hverfa ekki á nokkrum dögum eða versna jafnvel er ráðlagt að fá mat heilbrigðisstarfsmanns. Það sama á við ef  fólk fær flensulík einkenni og bólgna eitla. Hægt er að leita á heilsugæsluna á dagvinnutíma. Bæði er hægt að bóka tíma eða óska eftir símtali frá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á Mínum síðum á Heilsuvera.is og fá ráðgjöf á netspjallinu. Á Heilsuvera.is er einnig að finna fræðsluefni um skoradýrabit.

Höfundur er Margrét Björnsdóttir, fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Garðabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.