Grunnþættir heilbrigðis

Mynd af frétt Grunnþættir heilbrigðis
28.05.2020

Við mannfólkið skynjum líkama okkar og heilsu sem sjálfsagðan hlut. Við veltum sjaldnast fyrir okkur hve stórkostlegur og hæfileikaríkur líkami okkar er fyrr en við glímum við vanheilsu af einhverju tagi og förum að leita svara og reyna að skilja veikindin sem við er að fást. 

Nýlega sögðu ungir karlmenn, sem höfðu verið í neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, frá upplifun sinni að það væru skilaboð samfélagsins að lyf myndu bjarga ef eitthvað væri að heilsu. Fyrir stuttu sat ég með manni sem sagðist ekki skilja í að það væri ekki búið að finna upp pillu sem gæti tekið burt kvíða. 

Þegar við tölum um grunnþætti heilbrigðis erum við að tala um allt sem við getum gert sjálf til að auka heilbrigði, bæta líðan og fyrirbyggja sjúkdóma.

Svefn endurnærir 

Góður svefn er eitt það mikilvægasta fyrir heilsuna. Í svefninum fær heilinn tækifæri til að endurnæra sig, vinna úr áreiti dagsins og hreinsa sig. Rannsóknir hafa sýnt að ónógur svefn eykur streitu, kvíða og hættu á þunglyndi, minnkar einbeitingu og hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið. Rannsóknir hafa tengt ónógan svefn við sykursýki og of háan blóðþrýsting. Svefninn bætir einnig sköpunargleði og alla heilastarfsemi. 

Stundum er erfitt að ná góðum svefni en með því að kortleggja hann, stilla sig inn á réttan svefntíma og finna ráð sem hjálpa t.d. á heilsuvera.is eða leita aðstoðar hjá heilsugæslunni er hægt að bæta svefn. 

Mataræði skiptir máli 

Heilsusamleg fæða samanstendur af mat sem er ríkur af næringarefnum frá náttúrunnar hendi og er mikilvægt að borða fjölbreyttan mat í hæfilegu magni. 

Það tekur tíma að breyta um mataræði og mörgum reynist oft betra að breyta smám saman yfir í hollari kost. Hollur matur og venjur stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan sem gefur orku til að takast á við dagleg verkefni. 

Meltingin er stundum nefnd heili númer tvö, enda stöðugt samspil milli meltingar og heila. Rannsóknir sýna að heilbrigð þarmaflóra skiptir miklu máli fyrir heilsuna. 

Hreyfing hefur jákvæð áhrif 

Regluleg, dagleg hreyfing og minni kyrrseta er mikilvægur hluti af heilbrigðum lífsstíl. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á vöðvastyrk, beinþéttni og blóðflæði. Hún eykur vellíðan m.a. með því að minnka streitu og kvíða, bæta svefn og draga úr einkennum þunglyndis. Hreyfing minnkar hættu á ýmsum sjúkdómum og eykur jákvæð boðefni. Tilfinningastjórn, einbeiting og minnið verður betra. 

Félagsleg virkni 

Maðurinn hefur þörf fyrir félagslega þátttöku og virkni. Það er mikilvægt að vera í heilbrigðu samneyti við aðra sem gefur góðar jákvæðar tilfinningar og vera sjálfur gefandi í samfélaginu. Verum þátttakendur með vinum, fjölskyldu, vinnufélögum, félagasamtökum og í tómstundaiðkun.

Jákvæð viðhorf, að vera í núinu og gera ráðstafanir til að minnka streitu skipta máli. Það er ómetanlegt að finna þá tilfinningu að hafa stjórn á lífinu, við höfum öll frelsi til að nálgast verkefnin á okkar eigin forsendum. 

Á heilsuvera.is eru upplýsingar um hvað þú getur gert til að bæta líðan og fyrirbyggja sjúkdóma og alltaf er hægt að leita til heilsugæslunnar til að fá ráðgjöf og aðstoð. 

Höfundur: Guðrún Gyða Ölvisdóttir, geðhjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, Geðheilsuteymi HH vestur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu