Hvað varð um öll hjartaáföllin?

Mynd af frétt Hvað varð um öll hjartaáföllin?
16.04.2020

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá tíma sem við lifum nú, þegar heimsmynd okkar hefur verið umbylt.  “Megir þú lifa áhugaverða tíma”, mun kínverskt orðtæki hljóma - langflest okkar myndu örugglega velja að hafa ekki lifað innrás Covid-19 inn í líf okkar síðastliðna mánuði.  Heilbrigðiskerfið, bæði spítalarnir sem og heilsugæslan, standa fremst í baráttunni við veiruna og af augljósum ástæðum hefur því þurft að breyta miklu í starfsemi þessara tveggja hornsteina kerfisins.  

Líf okkar er gjörbreytt

Á mörgum heilsugæslum er því reynt að sinna sem mestu í gegnum símatíma og/eða Heilsuveru, og tímabókanir hjá læknum eða hjúkrunarfræðingum ekki gefnar nema að undangengnu mati læknis eða hjúkrunarfræðings símleiðis á einkennum hvers og eins.

En hvað þá með alla “venjulegu” sjúkdómana, alla þá sjúkdóma sem heilsugæslan  hefur sinnt við greiningu og fyrstu meðferð dags daglega alla daga ársins?  Hvað með brjóstverki, hjartaáföll, heilaáföll, botnlangabólgu og fleiri bráða sjúkdóma?  Hvað verður um þá og hver er tíðni þeirra á tímum veirunnar?

Fáar formlegar rannsóknir hafa skiljanlega enn farið fram, en vísbendingar eru um, bæði vestan hafs og austan, að bráðatilfellum eins og hjarta- og heilaáföllum hafi farið fækkandi þar nú þegar veiran hefur gjörbreytt lífi okkar eins og við þekktum það síðastliðna mánuði.  Harlan Krumholz, hjartalæknir við Yale-háskólann í Bandaríkjunum, ritar grein í New York Times þann 6. apríl sl. sem ber yfirskriftina “Hvað varð af öllum hjartaáföllunum?” - þar lýsir hann reynslu lækna hjá Yale af því hvernig þeir upplifa marktæka fækkun bráðra sjúkdóma eins og til dæmis hjartaáfalla síðastliðna mánuði.  Þessi þróun í Bandaríkjunum virðist ekki bundin við hjartasjúkdóma: Manda Chelednik, skurðlæknir í Missouri-fylki, spyr á Twitter þann 5. apríl sl. hvað hafi orðið af sjúkdómum eins og venjulegri botnlangabólgu og bráðri gallblöðrubólgu? 

Situr fólk heima?

Sama eða svipuð þróun virðist eiga sér stað austan hafs:  Rannsakendur á Spáni birtu nýlega grein þar sem þeir greindu frá 40% fækkun bráðra inngripa vegna hjartaáfalla í síðustu viku marsmánaðar á þessu ári samanborið við vikurnar áður en faraldurinn skall á.  Í grein í sænska læknatímaritinu Dagens Medicin þann 30. mars sl. er greint frá því að sænskir hjartalæknar telji komum vegna hjartavandamála á sjúkrahús þar í landi hafa fækkað mikið á tímum veirunnar.

Stóra spurningin er auðvitað af hverju þessi þróun virðist vera að eiga sér stað og hvort um sömu eða svipaða þróun sé að ræða hér á Íslandi?  Nærtækasta skýringin er mögulega því miður sú að fólk sitji heima með einkenni þar sem, skiljanlega, það vilji ekki leita á heilsugæslur eða sjúkrahús af ótta við að sýkjast þar af Covid-19.  Einnig er mögulegt að á þessum tímum skipaðrar fjarlægðar við næsta mann séu áhættuþættir fyrir sumum sjúkdómum breyttir vegna breyttrar hegðunar okkar.

Senda erindi eða hringja

Í ljósi alls ofangreinds er ástæða til að minna á hlutverk öflugrar heilsugæslu hér á landi. Ástæða er til að minna á að með rafrænum skilríkjum er ávallt hægt að senda erindi í gegnum Heilsuveru, eða þá hringja í afgreiðslu þinnar heilsugæslu og biðja um símatíma og eða viðtal við lækni eða hjúkrunarfræðing. 

Heilsugæslan - hér fyrir þig.

 

Höfundur er Hlynur Níels Grímsson sérnámslæknir í heimilislækningum, Heilsugæslunni Seltjarnarnesi og Vesturbæ 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu