Ánægjulegar athafnir í samkomubanni

Mynd af frétt Ánægjulegar athafnir í samkomubanni
08.04.2020

Undanfarið höfum við heyrt ráðleggingar úr ýmsum áttum sem snúa að því að viðhalda heilbrigðum venjum sem snúa að hreyfingu, mataræði og svefni á þessum óvenjulegu tímum. Þetta eru verndandi þættir fyrir ónæmiskerfið og stuðla um leið að andlegu heilbrigði.

Skipuleggja dagana 

Að halda skipulagi eða rútínu er krefjandi þegar vinna, skóli, félagsstarf og skipulagðar frístundir eru ekki lengur fyrir hendi eða með breyttu sniði frá því áður. Freistandi er að setja allt á bið þar til hlutirnir detta í svipað far og áður. Þegar hversdagsleg rútína er svo farin úr skorðum getur það valdið streitu, kvíða, depurð, samviskubiti og áhugaleysi.
Það getur hjálpað að búa til skipulag fyrir næsta dag eða nokkra daga fram í tímann. Það getur dregið úr þeirri óvissu og óöryggistilfinningu sem skiljanlega fylgir þessu tímabili. Þó þarf að passa að ætla sér ekki of mikið og setja upp einfalt og raunhæft plan.

Gott er að setja inn í slíkt daglegt skipulag athafnir sem snúa að ábyrgð og skyldum (til dæmis vinna og heimilisverk), athafnir sem snúa að persónulegri umhirðu (svo sem klæða sig og fara í sturtu), athafnir með öðru fólki (sérstaklega nýta tölvu og síma) og ánægjulegar athafnir. Daglegt jafnvægi milli þessara athafna er talið stuðla að betri líðan og lund.

Fjölga ánægjulegum athöfnum 

Þegar erfiðir tímar fara í hönd er fólk hvatt til að fjölga ánægjulegum athöfnum í slíku skipulagi og hafa þær að lágmarki 2-4 á dag. Hér þarf ekki að fara út í stórar aðgerðir eða leggja út mikinn kostnað. Aðalatriðið er að finna það sem hentar hverjum og einum.
Við höfum hér safnað saman nokkrum hugmyndum um ánægjulegar athafnir sem hægt er að setja inn í skipulagið. Allar rúmast innan þeirra takmarkana sem við öll búum tímabundið við og margar henta líka í sóttkví þegar takmarkanir sem fólk býr við eru ennþá meiri. Listinn miðast við fullorðna en sumar athafnir passa auðvitað fyrir alla aldurshópa – og eru góð skemmtun. 

 • Gera slökunar- eða núvitundaræfingar, hægt að nota öpp
 • Kortleggja ættartréð sitt
 • Gera heimaæfingar, t.d. styrktar- eða þrekæfingar og jóga
 • Leggja kapal
 • Spila skrafl á netinu
 • Umpotta plöntum
 • Fylgjast með tónleikum og öðrum menningarviðburðum á netinu
 • Sá fræjum að blómum og matjurtum
 • Nota hópmyndspjall til að hitta vini og ættingja
 • Hlusta á gamlar plötur sem þú hefur ekki hlustað á í langan tíma
 • Hringja í vini og athuga hvaða bókum eða kvikmyndum þau mæla með
 • Horfa á tónlistarmyndbönd og upptökur af tónleikum
 • Búa til spilunarlista af tónlist
 • Gera lista af kvikmyndum sem mann langar að horfa á
 • Útbúa gjöf eða glaðning handa einhverjum
 • Prófa nýja uppskrift
 • Búa til klippimyndir úr gömlum tímaritum
 • Elda eða baka
 • Prófa ný öpp í símanum
 • Spila leiki í síma eða tölvu
 • Föndra minningabók
 • Lesa ljóðabækur
 • Skrifa bréf eða tölvupóst
 • Halda þakklætisdagbók, skrifa niður 1-3 þakkarverð atriði á hverjum degi
 • Taka ljósmyndir í göngutúr
 • Spila eða læra á hljóðfæri
 • Fara í freyðibað
 • Teikna, lita eða mála
 • Flokka myndir í tölvunni / albúmum
 • Horfa á heimildamyndir eða náttúrulífsmyndir
 • Fara í göngutúr á nýjan stað eða fara nýja leið
 • Skrifa í dagbók
 • Lesa upphátt fyrir einhvern
 • Leyfa sér að dreyma dagdrauma
 • Syngja í sturtu
 • Hringja í gamla vini eða ættingja sem maður hefur ekki heyrt í lengi
 • Skipuleggja tónlistarsafnið uppi í hillu eða í tölvunni
 • Vinna í garðinum
 • Prófa nýjan tölvuleik
 • Setja sameiginleg markmið um hreyfingu með vini og veita stuðning úr fjarlægð
 • Búa til æfingaprógramm eða finna tilbúið á netinu
 • Skipuleggja geymsluna
 • Taka með kíki í göngutúr og skoða fugla
 • Taka til og þrífa, t.d. taka t.d. fyrir eitt herbergi í einu
 • Horfa á uppáhaldsbíómyndirnar sínar
 • Lesa aftur bók sem manni fannst skemmtileg
 • Hlusta á nýjar hljómsveitir eða plötur
 • Skoða gömul myndaalbúm, sérstaklega þau sem vekja góðar minningar
 • Horfa á íþróttir
 • Semja ljóð eða texta við lög
 • Senda fyndin myndbönd, tónlist eða myndir til vina
 • Læra ný dansspor
 • Fara í göngutúr og hlusta á tónlist eða hljóðbók á meðan
 • Sinna viðhaldi, t.d. mála eða gera við ef eitthvað er bilað
 • Fara í göngutúr í núvitund með athygli á öllum skilningarvitum
 • Lesa og fá lánaðar bækur
 • Læra að prjóna eða hekla
 • Gera lista af bókum sem mann langar að lesa
 • Hlusta á hljóðbækur, hlaðvörp og útvarpsþætti
 • Nota myndbönd til að læra eitthvað nýtt, t.d. skrautskrift, hárgreiðslu eða gera við þvottavél
 • Endurraða húsgögnum
 • Endurskipuleggja fataskápinn 

Höfundar eru starfsmenn í Geðheilsuteymi HH Vestur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu