Símaviðtöl við sálfræðinga vegna COVID-19 kvíða

Mynd af frétt Símaviðtöl við sálfræðinga vegna COVID-19 kvíða
30.03.2020

Þau sem eru sérstaklega áhyggjufull eða kvíðin vegna COVID-19 geta fengið símaviðtal við sálfræðing á öllum heilsugæslustöðvunum okkar.

Hringið á heilsugæslustöðina ykkar til að bóka 20 mínútna símaviðtal við sálfræðing.

Kvíði og streita vegna COVID-19

Það er eðlilegt að finna til kvíða, óróleika eða streitu nú þegar COVID-19 herjar á okkur. Það er þó mikilvægt að halda ró sinni og anda rólega.

Kvíði er mikilvæg og eðlileg tilfinning. Hann er gagnlegur því hann hvetur okkur til að fara varlega, t.d. þvo okkur um hendur.

Það er ýmislegt sem við getum gert til að ráða betur við kvíða og streitu. Það er t.d. mikilvægt að vera virk, hugsa um aðra hluti og halda áfram að lifa sem eðlilegustu lífi.

Hvað get ég gert?

  • Minnkaðu áhyggjur með því að takmarka þann tíma sem þú fylgist með fréttum sem valda þér óróleika eða kvíða
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir um hvernig þér líður
  • Vertu í góðum samskiptum við þína nánustu heima eða fjölskyldu og vini í síma eða tölvu
  • Hreyfðu þig, farðu t.d. út að ganga eða gerðu æfingar innandyra
  • Hafðu eitthvað fyrir stafni ef þú þarft að vera inni við, haltu áfram að lifa heilsusamlega
  • Gættu þess að fá góða næringu og nægan svefn
  • Skoðaðu hvað þú hefur gert áður til að takast á við erfiðleika og notaðu þær aðferðir til að ráða við tilfinningar þínar núna
  • Leitaðu þér upplýsinga frá áreiðanlegum aðilum um áhættu og hvernig þú getur varið þig og aðra sem best t.d. á vefnum covid.is

Ef þér finnst kvíði eða óróleiki vera óbærilegur hafðu þá samband við heilsugæslu og pantaðu tíma hjá sálfræðingi eða notaðu netspjall á heilsuvera.is