Fjölgun erinda í netspjalli Heilsuveru

Mynd af frétt Fjölgun erinda í netspjalli Heilsuveru
25.03.2020

Á undanförnum vikum  hefur álag aukist til muna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna Covid-19 veirunnar. 

Aukin aðsókn hefur verið í netspjall Heilsuveru og fjöldi erinda hefur margfaldast á síðustu vikum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Til að bregðast við þessari aukningu hefur þurft að kalla til starfsfólk úr öðrum störfum af ýmsum starfsstöðvum. Það er til marks um hversu viljugt starfsfólk heilsugæslunnar er að koma til móts við þarfir samfélagsins og  hversu mikill sveigjanleiki þarf að vera til staðar í heilbrigðiskerfinu.

Ráðleggingar og fyrirmæli frá heilbrigðisyfirvöldum og almannavörnum vegna Covid-19 breytast ört, og þurfa hjúkrunarfræðingar sem standa vaktina á netspjallinu að fylgjast vel með þeim breytingum til að gefa rétta ráðgjöf. 

Alls eru nú 19 hjúkrunarfræðingar, m. a. úr skólahjúkrun, af Skrifstofu HH, frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar, sem skipta með sér vöktum á netspjallinu. Netspjallið er opið frá 8:00-22:00 alla daga vikunnar og erindum sem berast utan þess tíma er svarað að morgni næsta dags. 

Notendur kunna vel að meta þessa þjónustu, og eru um 92% þeirra ánægðir með þjónustuna. Starfsfólk er hvatt áfram af ánægðum skjólstæðingum og kann vel að meta þær góðu umsagnir sem borist hafa.

Dæmi um slíkar umsagnir eru:

"Mjög skjót og góð þjónusta og fékk þau svör sem ég þurfti.."
"Aldeilis frábært!"
"Þið standið ykkur vel :)"
"Fín og skýr ráðgjöf"
"Takk fyrir að standa vaktina fyrir okkur hin."