Lungnateppa sé greind og meðhöndluð

Mynd af frétt Lungnateppa sé greind og meðhöndluð
12.03.2020

Langvinn lungnateppa er langvinnur lungnasjúkdómur sem á oftast upptök sín löngu áður en hann er greindur. Sjúkdómurinn veldur öndunarerfiðleikum, því berkjurnar sem flytja loft til lungnanna eru að þrengjast og skemmast. Mæði og þreyta eru algeng einkenni sem aukast smám saman. Þróun sjúkdómsins er oft hæg og því gera einstaklingar sér mögulega ekki grein fyrir því að heilsan er að versna. Einkennin geta haft áhrif á daglegar athafnir og dregið úr lífsgæðum. Sjúkdóminn er hægt að meðhöndla og mikilvægt er að greina hann og meðhöndla strax til að hægja á framþróun.

Orsakir og einkenni 

Reykingar eru algengustu orsakir sjúkdómsins, þar sem þær geta skaðað lungun til frambúðar. Einnig geta ýmis efni og ryk valdið sjúkdómnum. Iðnaðarmenn, bændur og aðrar stéttir sem vinna eða hafa unnið í umhverfi þar sem er ryk, eiturefni og gasefni eru í aukinni áhættu. Erfðaþættir geta einnig haft áhrif.

 • Mæði, sérstaklega við hreyfingu
 • Blásturshljóð
 • Hósti og slímmyndun 

Einstaklingar sem hafa haft sjúkdóminn lengi eru í aukinni hættu á að fá sýkingar eins og lungnabólgur, hjartasjúkdóma og lungnakrabbamein.

Öndunarmæling upplýsir 

Greining langvinnrar lungnabólgu fer fram á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. Í viðtali er saga einstaklings skráð, einkenni metin og í kjölfarið er gerð öndunarmæling sem gefur upplýsingar um ástand lungnanna. Öndunarmælingar eru framkvæmdar á heilsugæslustöðvum.
Er einföld rannsókn og tekur stuttan tíma. Draga þarf djúpt andann og blása eins hratt og hægt er í rör sem tengt er við tæki. Tækið mælir hversu miklu lofti einstaklingur nær að blása frá lungunum og hve hratt. Hafi einstaklingur eftirfarandi einkenni ætti að íhuga öndunarmælingu:

 • Þú ert, eða hefur verið reykingamaður
 • Þú ert eldri en 40 ára
 • Þú hefur haft hósta í langan tíma
 • Þú hefur fundið fyrir aukinni mæði síðastliðin ár
 • Þú getur ekki gengið upp stiga án þess að upplifa mæði
 • Þú hefur gjarnan fundið fyrir hvæsandi öndun undanfarin ár
 • Þú getur ekki hreyft þig eins mikið og áður
 • Þú hóstar upp slími jafnvel þó að þú sért ekki með kvefpest
 • Þú hefur einhvern tíma fengið meðferð (t.d. innöndunarlyf) vegna lungnasjúkdóms
 • Þú hefur einhverjar áhyggjur af lungnaheilsu þinni
 • Þér líður eins og þú fáir ekki nóg loft
 • Þú finnur fyrir verk við inn- eða útöndun

Viðhalda styrk og getu 

Reykleysismeðferð skiptir sköpum í að draga úr skemmdum á lungnavef. Bólusetning gegn lungnabólgu er mikilvæg fyrir fólk með lungnasjúkdóma. Endurhæfing og hreyfing er mjög mikilvæg til að viðhalda styrk og getu lungna og líkama. Fólk fær æfingar við hæfi og leiðir til að auðvelda öndun. Innöndunarlyf eru notuð til að opna öndunarveginn og minnka bólgur, einnig steratöflur ef þarf. Súrefni er notað þegar sjúkdómurinn er lengra genginn. Skurðaðgerðir eru notaðar í örfáum tilfellum.

Heilsugæslan til taks 

Mikilvægt er að sjúklingar með lungnasjúkdóma séu í góðum samskiptum við fagfólk heilsugæslunnar. Best er að hafa áætlun um reglulegt eftirlit. Á heilsuvera.is eru ítarlegri upplýsingar um langvinna lungnateppu og þar er einnig hægt að taka stutt krossapróf til að meta einkenni sjúkdómsins. 

 

Jórunn Edda Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Heilsugæslunni í Mosfellsumdæmi

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu