Heilsugæslan nýtur mikil trausts

Mynd af frétt Heilsugæslan nýtur mikil trausts
12.02.2020

Í nýlegri þjónustukönnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Sjúkratryggingar Íslands kemur fram að mikið traust er borið til heilsugæslunnar en 74% þátttakenda sögðust bera mjög mikið eða fremur mikið traust til heilsugæslunnar. Allar heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu voru yfir svokölluðu maskínumeðaltali sem er meðaltal úr gagnagrunni sem hefur að geyma svör fjölmargra einstaklinga fyrir sambærilega spurningu. 

Þetta sýnir að heilsugæslan nýtur almennt mikils traust í samfélaginu. Einnig kom fram að fólk er almennt ánægt með þjónustu heilsugæslunnar, en um 79% þátttakenda sögðust vera mjög ánægðir eða fremur ánægðir með þjónustuna.

Þegar spurt var um hvað helst mætti bæta, komu fram óskir um styttri biðtíma. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinnur markvisst að því að bæta aðgengi. Nú er boðið upp á opna móttöku á öllum heilsugæslustöðvum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá kl. 8.00 - 16.00 þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar taka á móti erindum samdægurs og koma í viðeigandi farveg. Einnig er tímaúrval fjölbreyttara en áður og boðið uppá styttri samdægurstíma.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun halda áfram að nýta þessar niðurstöður til að bæta þjónustuna og koma til móts við þarfir skjólstæðinga.