Hreyfing - allra meina bót

Mynd af frétt Hreyfing - allra meina bót
30.01.2020

Nú er nýtt ár hafið með loforðum um bætt líferni og von um betra líf sér og sínum til handa. Þá styrkir það kannski einhverja í vali sínu á loforðum að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur bent á að ónóg hreyfing sé einn af helstu áhættuþáttum fyrir dauða í heiminum. Það sem þó vekur hvað mestan ugg er að 80% af unglingum hreyfa sig ónóg, svo að vandamálið vex með ungu kynslóðinni og vaxandi tækni- og tölvuvæðingu.

Tækni- og tölvubylting síðustu áratuga hefur gjörbreytt lífsstíl okkar mjög hratt. Í dag þarf fólk sáralítið að hreyfa sig til að hafa í sig og á og flestir sitja framan við skjá stóran hluta vinnudags síns. Við þurfum ekki heldur lengur að sækja dægrastyttingu eða skemmtanir utan heimilis. Einnig þarf fólk ekki lengur að fara í verslanir, heldur getur pantað vörur heim, þar með talið matvörur, þannig að það er ekki undarlegt að í dag sé hreyfingarleysi ein helsta heilsuvá hins vestræna heims. 

Með sömu þróun endum við kannski eins og afkomendur okkar í teiknimyndinni Wall-E; vöðvarýr, brothætt og bjargarlaus án hjálpar vélmenna.

Bætir þol, þrek og vitræna getu 

 Mikilvægt er að benda á að WHO er ekki endilega að tala um líkamsrækt heldur skilgreinir WHO hreyfingu sem alla vöðvavirkni sem inniber orkubrennslu. Má þar nefna virkni við vinnu, heimilisstörf, leik, ferðalög eða dægrastyttingu.

Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig og öll hreyfing skiptir máli. Mikilvægt að nota hvert tækifæri sem gefst, eins og til dæmis að ganga eða hjóla í vinnuna og nota tröppur í stað lyftu, þó ekki sé nema ein hæð til að byrja með. 

Aukin hreyfing hefur víðtæk áhrif á heildardánartíðni með jákvæðum áhrifum á hækkaðan blóðþrýsting, sykursýki tegund 2, kviðfituheilkenni, kransæðasjúkdóm, heilablóðföll, brjóstakrabba, ristilkrabba, þunglyndi og dettni. Það sem ekki minna máli skiptir er að ofannefnd jákvæð áhrif á hina ýmsu sjúkdóma þýða lengri tími við góða líkamlega og andlega heilsu og meiri lífsgæði en annars hefði orðið. Einnig eykur hreyfing þol, þrek, styrk, beinþéttni, vitræna getu, minni og síðast en ekki síst andlega líðan og starfræna getu. 

Það gæti hjálpað sumum með áramótaloforðin að Lífshlaupið hefst 5. febrúar, en með því vill Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu, hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta.

Hreyfing helst daglega

Ráðleggingar landlæknis segja að börn og unglingar ættu að stunda miðlungserfiða (hjartsláttur og öndun heldur hraðari en venjulega en hægt er að halda uppi samræðum) og erfiða (kallar fram svita og mæði þannig að erfitt er að halda uppi samræðum) hreyfingu í minnst 60 mínútur daglega. Fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. WHO gengur heldur lengra, sérstaklega með tilliti til vöðvastyrkjandi hreyfingar tvisvar til þrisvar í viku.

Að lok­um vil ég benda þeim sem eiga við heilsu­vanda að stríða og eru óör­ugg­ir að hefja eða auka hreyf­ingu að leita til heim­il­is­lækn­is síns og fá ávís­un á hreyfiseðil og þannig aðstoð sjúkraþjálf­ara að finna hreyf­ingu sem hent­ar þeim og aðstoða að kom­ast af stað með nýtt og betra líf gegn­um aukna hreyf­ingu.

Á vefnum heilsuvera.is má líka finna ráðleggingar um hreyfingu.

Hörður Björnsson svæðisstjóri og fagstjóri lækninga Heilsugæslunni Miðbæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu