Sykursýki 2 er flókinn sjúkdómur

Mynd af frétt Sykursýki 2 er flókinn sjúkdómur
16.01.2020

Sykursýki verður stöðugt algengari í heiminum og hér á landi hefur fólki með sykursýki af tegund 2 fjölgað um helming á 30 árum. Sykursýki veldur ýmsum fylgikvillum en með góðri sjálfsumönnun, markvissu eftirliti og meðferð hjá heilbrigðisstarfsfólki er hægt að koma í veg fyrir eða seinka fylgikvillum. Fólki með sykursýki er ætlað að sjá um meðferð við sjúkdómnum í samvinnu við fagfólk og ber sjálft meginþungann af daglegri umönnun.

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur þar sem sykurmagn eykst í blóði. Orsökin er ekki þekkt og er sjúkdómurinn ólæknandi. Fólk með sykursýki getur þó lært að stjórna meðferðinni sjálft og lifað fullkomlega eðlilegu lífi. Því er mikilvægt að fólk með sykursýki setji sig vel inn í sjúkdóminn og taki virkan þátt í að ákveða heilsueflingu og meðferð. 

Helstu einkenni við sykursýki tegund 2 eru: 

  • Tíðari og meiri þvaglát. 
  • Þorsti.
  • Þreyta og slappleiki.
  • Sinadráttur, náladofi í fingrum og þrálátar sýkingar í húð.

Skert sykurþol er oft undanfari á sykursýki 2 og geta einkenni því verið mismikil og í langan tíma áður en sjúkdómurinn er greindur. Kannist þú við þessi einkenni ættir þú að leita til heilsugæslunnar.

Veldur skemmdum á líffærakerfum

Besta forvörnin er heilbrigt líferni, það er að hreyfa sig reglulega, borða hollan mat og vera sem næst kjörþyngd, en það dugir ekki alltaf til. Sykursýki af tegund 2 er mjög flókinn sjúkdómur sem hegðar sér misjafnlega milli sjúklinga og þróun sjúkdómsins er einnig misjöfn. Of hár blóðsykur í langan tíma veldur skemmdum á líffærakerfum; þess vegna er mikilvægt að ná góðri stjórn á blóðsykrinum.

Hreyfing hefur minnkað og kyrrseta aukist gríðarlega á síðustu árum. Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Hreyfing er ekki aðeins mikilvæg til að sporna gegn fjölmörgum sjúkdómum, heldur veitir hún styrk til að takast á við dagleg verkefni og stuðlar að betri svefni og hvíld almennt. Þekkt er að hreyfing er öflugt vopn gegn streitu og eykur lífsánægju og lífsgæði einstaklinga. Mælt er með því að stunda hreyfingu í 30 mínútur á dag, þrisvar til fimm sinnum í viku ef geta er til, annars eins og geta leyfir, allt er betra en ekkert og oft hægt að setja sér markmið um að auka hana skipulega.

Góður lífsstíll er mikilvægur í meðferð

Fyrsta og mikilvægasta meðferð einstaklinga með sykursýki 2 er lífsstíllinn og í sumum tilfellum getur hún verið eina meðferðin.

  • Mataræði – borða hollan mat reglulega yfir daginn í hæfilegum skömmtum.
  • Hreyfing – hreyfa sig reglulega, að minnsta kosti 30 mínútur í senn. Mikilvægt er að finna sér hreyfingu sem veitir ánægju.
  • Lyfjagjöf ef með þarf, hún getur verið misflókin.
  • Streitustjórnun – mikil streita hefur óæskileg áhrif á blóðsykurgildi. Það er erfitt að skipuleggja daglegt líf ef streita er mikil.
  • Góður svefn – grunnur að góðum degi.
  • Hætta að reykja.

Hreyfing hefur jákvæð almenn heilsufarsleg áhrif. Hún lækkar blóðsykur þar sem insúlínnæmi eykst í vefjunum, þ.e. insúlínið sest frekar á viðtakann sem opnar leið inn í frumuna. Hún hefur einnig áhrif til lækkunar á blóðþrýstingi og blóðfitu og getur minnkað streitu. Ef góð sykurstjórn næst ekki með lífsstílsbreytingu þarf að grípa til lyfja.

Meðgöngusykursýki og eftirlit eftir fæðingu

Tíðni meðgöngusykursýki á Íslandi hefur margfaldast undanfarin ár, eða úr 2,4% í 9,6% og um 50% kvenna sem greinast með meðgöngusykursýki fá sykursýki 2 innan 10 ára. Mjög gott eftirlit er með konum sem greinst hafa með meðgöngusykursýki í mæðravernd í heilsugæslunni. Mælt er með að þessar konur komi á heilsugæsluna í skimun á langtímablóðsykri þremur mánuðum eftir barnsburð. Þá er mikilvægt að árétta fræðslu um mataræði, hreyfingu og þörf á auknu eftirliti fyrir og við næstu þungun og til framtíðar. Ráðlagt er að skima fyrir sykursýki 2 á eins til þriggja ára fresti í samráði við heilbrigðisstarfsmenn á heilsugæslunni.

Við bendum fólki á heilsuvera.is en þar má sjá góðar leiðbeiningar tengdar sykursýki.

Rut Gunnarsdóttir svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Hvammi

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu