Komugjöld í heilsugæslu lækkuð

Mynd af frétt Komugjöld í heilsugæslu lækkuð
23.12.2019

Þann 1. janúar næstkomandi lækka almenn komugjöld í heilsugæslu úr 1.200 krónum í 700 krónur eða um rúmlega 40%. Þetta á við um komur fólks á dagvinnutíma á heilsugæslustöð þar sem viðkomandi er skráður.

Aukin framlög ríkisins vegna þessarar aðgerðar nema um 135 milljónum króna á næsta ári. Áformað er að fella komugjöld í heilsugæslu á dagvinnutíma niður að fullu árið 2021 og er áætlaður kostnaður vegna þess um 350 milljónir króna. Líkt og verið hefur greiða börn, aldraðir og öryrkjar ekki komugjöld í heilsugæslu.

Í vikunni kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þessi áform og fleiri til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Meðal annars verða niðurgreiðslur sjúkratrygginga fyrir tannlæknisþjónustu og lyf auknar og sömuleiðis vegna tiltekinna hjálpartækja og reglur um ferðakostnað verða rýmkaðar. Hluti aðgerðanna kemur til framkvæmda 1. janúar næstkomandi. Í fjármálaáætlun stjórnvalda eru 3,5 milljarðar króna ætlaðir til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu til ársins 2024. Nánari upplýsingar um áformin eru í frétt á vef stjórnarráðsins.

Lækkun komugjalda sjúklinga sem leita til heilsugæslu er mikilvægt skref í þeirri viðleitni stjórnvalda að hún sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Veikindi eru yfirleitt þess eðlis að óþarft er að leita á bráðamóttöku,“ sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í viðtali við Morgunblaðið.

„Að undanförnu hafa verið tekin stór skref sem hafa eflt heilsugæsluna en á sl. tveimur árum hafi fjárframlög til heilsugæslunnar verið aukin um 18% að raunvirði. Verulega muni um slíkt. „Flestum algengustu sjúkdómstilvikum og minniháttar slysum er heilsugæslan fær um að sinna. Bráðatilvikin sem sinnt er hér á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu eru að jafnaði 1.000 á dag. Við viljum gjarnan að öll bráðatilvik sem við getum sinnt komi á heilsugæsluna og við reynum af fremsta megni að hafa réttan sjúkling á réttum stað á réttum tíma. Álagið á bráðadeildina í Fossvogi hefur minnkað og þar má gera enn betur okkur öllum til góðs. Samt er enginn að tala um að stórslasaðir eða fólk sem fær hjartaáfall komi með sjúkrabíl á heilsugæsluna. Slíkt fer auðvitað á sjúkrahús,“ segir Óskar.