Orkuboltar með ADHD

Mynd af frétt Orkuboltar með ADHD
16.12.2019

Taugaröskunin ADHD (e. Attention deficit hyperactivity disorder) stafar af truflun í boðefnakerfi heilans á svæðum sem stýra hegðun og athygli. Um það bil 7-10% barna greinast með ADHD og er röskunin algengari hjá strákum en stelpum. ADHD er yfirleitt meðfætt og eru erfðir stærsti orsakaþátturinn.

ADHD stafar ekki af lélegu uppeldi eða erfiðleikum í félagsumhverfi en álag getur ýtt undir einkennin og gert þau meira hamlandi. 

Hamlandi áhrif

Börn með ADHD eru gjarnan hressir, skemmtilegir orkuboltar með fjörugt ímyndunarafl. Eru oft listrænir skapandi einstaklingar og með leiðtogahæfileika. Athyglisbrestur, stutt úthald, ofvirkni og hvatvísi geta hins vegar haft afar hamlandi áhrif á hegðun, nám, félagasamskipti og líðan.

Börn með ADHD eiga erfitt með að hlusta og fylgjast með, eru utan við sig, gleymin í athöfnum daglegs lífs, týna hlutum, truflast auðveldlega og gera kæruleysisleg mistök. Þau eiga erfitt með að sitja kyrr, eru mikið á iði, fikta í hlutum, skemma óvart og tala mikið. Þau eiga erfitt með að bíða í röð, grípa fram í fyrir öðrum og framkvæma hluti án þess að hugsa fyrir afleiðingum.

Breytileg einkenni

Stýrifærni er skert sem birtist gjarnan í slakri reiði- og tilfinningastjórnun, erfiðleikum við að skipuleggja sig, slakri tímastjórnun og skorti á félagsfærni. Oft er dagamunur á einkennum og sveiflur í líðan. Með aldrinum minnkar ofvirkni en eirðarleysi og einbeitingarskortur eru áfram hamlandi, mismikið þó. Erfið hegðun, mótþrói og samskiptavandi eru gjarnan fylgifiskar ADHD. Kækir, námserfiðleikar og/eða lesblinda eru einnig algeng. Ákveðinn hópur barna með ADHD er með viss einkenni einhverfu og/eða greinist með einhverfu.

Mikilvægt er að greina vandann og grípa til viðeigandi meðferðar þegar einkenni verða hamlandi, því ef ekkert er að gert er hætta á að börn og ungmenni með ADHD þrói með sér lágt sjálfsmat, kvíða og/eða depurð. Auknar líkur eru á áhættuhegðun og slæm reynsla af skólagöngu eykur líkur á brottfalli úr framhaldsskóla.

Það er ekkert sem læknar ADHD. Meðferð miðar að því að draga úr einkennum, koma í veg fyrir fylgiraskanir, auka náms og félagsfærni, bæta líðan og sjálfsmat. Með því að fræða og kenna aðferðir sem eru gagnreyndar er hægt að efla færni og/eða bjargráð barna, foreldra, kennara og annarra umönnunaraðila til að takast á við vandann.

Skipulag og fastar venjur 

Börn með ADHD þurfa skýrt skipulag, fastar venjur og rútínur, skýr og einföld fyrirmæli. Myndrænt skipulag hjálpar. Gott er að búta niður verkefni og vinna í litlum hópum. Lágmarka þarf áreiti og stuðla að stöðugleika í umhverfi. Tryggja þarf nægan svefn og hollar matarvenjur. Markviss stuðningur í skóla, þátttaka í íþróttum eða tómstundum og skilningur umhverfisins er lykilatriði. 

Lyfjameðferð við ADHD er stór þáttur í meðferðinni. Ekki þurfa öll börn með ADHD lyf, en ef farið er að halla undan fæti varðandi nám, líðan og félagsleg samskipti þrátt fyrir önnur úrræði er rétt að prófa lyf. Góð eftirfylgd er nauðsynleg og með markvissri meðferð og eftirfylgd er hægt að bæta stöðu barna með ADHD og minnka líkur á vanda síðar meir.

Nánar um ADHD má finna undir Ráð á síðu Þroska- og hegðunarstöðvar

Katrín Davíðsdóttir barnalæknir og fagstjóri lækninga, Þroska- og hegðunarstöð

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu