Fylgni milli svefnlyfjanotkunar og dánartíðni

Mynd af frétt Fylgni milli svefnlyfjanotkunar og dánartíðni
13.12.2019

Rannsóknarteymi á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóla Íslands og NTNU Þrándheimi, birti nú fyrir skemmstu grein í tímaritinu BMJ Open um rannsókn þar sem könnuð var dánartíðni sjúklinga sem fengið höfðu ávísað svefnlyfjum eða kvíðastillandi lyfjum í misstórum skömmtum samfleytt um þriggja ára skeið, og voru ýmist með fjölveikindi eða ekki. Fjölveikindi telst það vera þegar sjúklingur er með a.m.k. tvo langvinna sjúkdóma eða fleiri. Viðmiðunarhópurinn samanstóð af þeim sem hvorki voru með fjölveikindi né fengu ávísað svefnlyfjum eða kvíðastillandi lyfjum. Þeim sem tóku lyfin var skipt upp í þá sem tóku lítið af lyfjunum, þá sem tóku miðlungsmikið og þá sem tóku mikið.

Bornir voru saman hópar sjúklinga með fjölveikindi sem ávísað hafði verið svefnlyfjum eða kvíðastillandi lyfjum og þeir sem ekki hafði verið ávísað þessum lyfjum. Leiðrétt var fyrir aldri, kyni og fjölda langvinnra sjúkdóma. Í ljós kom að dánartíðni í báðum hópunum sem tóku lyfin, þ.e. annars vegar þeim sem voru með fjölveikindi og hins vegar þeim sem ekki voru með fjölveikindi, jókst jafnt og þétt á tímabilinu og þeim mun meira sem skammtarnir voru hærri. Ástæða er til að endurskoða ávísun á þessi lyf til langs tíma og vinna markvisst að því að draga úr notkun þeirra.

Greinina er að finna á eftirfarandi slóð:
http://bmjopen.bmj.com/cgi/content/full/bmjopen-2019-033545