Forvarnir í þágu ungra barna

Mynd af frétt Forvarnir í þágu ungra barna
29.11.2019

Forvarnir eru mikilvægar og er ung- og smábarnaverndin ein sú mikilvægasta. Markmið ung- og smábarnaverndar er að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og heilbrigðisfræðslu til fjölskyldna þeirra.

Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna og er mikilvægt að uppgötva frávik í heilsufari og þroska sem fyrst og gera viðeigandi ráðstafanir. Ekki er síður mikilvægt að bólusetja börnin á réttum aldri til að koma í veg fyrir að þau smitist af alvarlegum smitsjúkdómum.

Útveguðu nauðsynjar

Ung- og smábarnavernd hefur verið í boði á Íslandi í meira en eina öld, en Hjúkrunarfélagið Líkn var stofnað 1915 að frumkvæði Christophine Bjarnhéðinsson hjúkrunarkonu. Líkn var framsýnt félag kvenna og fólst starfsemin í heimahjúkrun, aðstoð við fátæka, berklavernd, mæðravernd og ungbarnavernd.

Árið 1927 hóf Líkn skipulagða ungbarnavernd í Templarasundi 3 í Reykjavík og gátu mæður komið þangað með börn sín og fengið læknisskoðun og leiðbeiningar um meðferð ungbarna endurgjaldslaust.
Hjúkrunarkonur fóru í heimavitjanir frá fæðingu barns til sex mánaða aldurs. Það var mikil fátækt á þessum tíma og útvegaði ungbarnaverndin mjólk, lýsi, matvörur, fatnað, barnarúm og fleiri nauðsynjar til fátækra fjölskyldna. Einnig var boðið upp á ljósböð fyrir börn sem þrifust illa, voru með langvarandi kvef eða beinkröm.

Standa vörð um góðan árangur

Ungbarnadauði var algengur á þessum árum vegna smitsjúkdóma sem gengu yfir landið en vegna góðrar þátttöku í almennum bólusetningum barna þá sjást þeir varla núorðið hér á landi og hefur Ísland verið um árabil með einn minnsta ungbarnadauða í Evrópu. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um þennan góða árangur sem við höfum náð hér á landi. Tryggja þarf áframhaldandi góða þátttöku í bólusetningum til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og alvarlegar afleiðingar þeirra. Það hefur margt breyst síðan Hjúkrunarfélagið Líkn hóf sín störf, en ung- og smábarnaverndin byggist enn á þessum grunni og er enn í dag öllum foreldrum að kostnaðarlausu.

Hjúkrunarfræðingar fara ennþá í heimavitjanir og koma foreldrar síðan í kjölfarið á heilsugæslustöðina með barnið í skoðanir og hitta lækni og hjúkrunarfræðing sem fylgir fjölskyldunni næstu árin. Lögð er áhersla á að efla þekkingu og styrkja færni foreldra í nýjum aðstæðum og fylgst er með þroska barna frá fæðingu til skólaaldurs. Skimað er fyrir þunglyndi og kvíða hjá mæðrum fyrir og eftir fæðingu og boðið upp á viðtöl við hjúkrunarfræðinga, heimilislækna og sálfræðinga.

Árangursrík heilsuvernd

Á fyrstu árum ævinnar er lagður grunnur að framtíð einstaklingins og eru hjúkrunarfræðingar og læknar í ung- og smábarnavernd í einstakri aðstöðu að veita foreldrum ráðleggingar og stuðning. Vert er að hafa í huga að árangursrík heilsuvernd barna á heilsugæslustöðvum er ein besta leiðin til að draga úr kostnaði vegna heilsufarsvanda síðar meir. Á heilsuvera.is má finna fræðsluefni um þroska, heilsu og umönnun barna. Á síðunni má sömuleiðis finna myndbönd um tengslamyndun, vellíðan leikskólabarna og tannhirðu.

Hægt er að leita ráða hjá hjúkrunarfræðingi á netspjallinu en foreldrar geta einnig alltaf leitað til heilsugæslunnar og fengið ráð hjá sínum hjúkrunarfræðingi og lækni. 

Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu