Útbrot á húð geta verið alvarleg

Mynd af frétt Útbrot á húð geta verið alvarleg
05.11.2019

Húðútbrot hafa allflestir fengið en oft fær fólk áhyggjur af því að um sé að ræða alvarlegan sjúkdóm. Húðin er stærsta líffæri mannslíkamans og á húð geta oft komið fram ýmis merki um sjúkdóma. Allt frá saklausum staðbundnum ertingar- eða ofnæmisútbrotum, upp í útbrot með lífshættulegri heilahimnubólgu.
Bólusett er á heilsugæslustöðvum og víðar fyrir mörgum smitsjúkdómum sem valda útbrotum. Hér verður lauslega fjallað um alvarleg útbrot en einnig um algengari birtingarmyndir. 

Alvarlegar tegundir húðútbrota

Húðblæðingar/depilblæðingar (Petecchias e.) geta verið merki um alvarlegan sjúkdóm. Þekktasti orsakavaldurinn er meningókokkaheilahimnubólgu-bakterían og er sá hvað banvænastur smitsjúkdóma. Bólusett er fyrir meningókokkategund C (Neisvac-C) í ungbarnavernd hjá heilsugæslunni og sem betur fer hefur alvarlegum heilahimnubólgu og sýkingum stórfækkað vegna þess. Þessi útbrot geta orðið stærri og myndað svo kallað purpura (stærri húðblæðingar). Þessi útbrot geta einnig verið merki um aðra alvarlega sjúkdóma og ráðleggjum við því öllum að leita til læknis sem fyrst ef húðblæðingar myndast. 
Útbreidd roðaútbrot með eða eftir smitsjúkdóma. Til eru sjaldgæfar en alvarlegar tegundir útbrota sem tengjast streptókokkum og stafýlókokkum sem eru algengar bakteríur sem sýkja menn. – Einnig eru til alvarleg lyfjaútbrot með flögnun, sáramyndun og blöðrumyndunum í húð, svo sem svo kallað Stevens Johnson syndrome og TEN. Þessi útbrot tengjast einnig stundum sýkingum og eru lífshættuleg.
Ofnæmisútbrot vegna lyfja eða matvæla eru roðaútbrot með kláða sem geta verið misslæm. Alvarlegasta tegund ofnæmis með útbrotum er bráðaofnæmi með hugsanlegu ofnæmislosti (Anaphylaxis/ anaphylactic shock ). Þekktar ástæður bráðaofnæmis eru lyf svo sem penicillin, Bólgueyðandi lyf (NSAID lyf), skuggaefni í æð. Býflugnastungur og vespustungur/ geitungastungur geta einnig valdið bráðaofnæmi. Síðan má telja matvæli svo sem hnetur, jarðarber, kívíávexti o.fl. Um er að ræða hratt vaxandi einkenni útbrota/kláða, jafnvel öndunarerfiðleika og lækkandi blóðþrýstings (lost) sem gerist á allt niður í nokkrar mínútur eftir inntöku eða inngjöf lyfs eða matvæla. Þetta er sú tegund ofnæmis sem fólk þarf að fá adrenalín sprautu við og vera undir eftirliti í kjölfarið. Fólk með sögu um alvarlega bráðaofnæmi fær ávísað adrenalín sprautupenna (Epipen) til að geta brugðist hratt við. 

Algeng húðútbrot 

Exem-húðsjúkdómar eru algengir, um er að ræða bólgu í húð. Algengast er barnaexem (atopic eczema) sem byrjar á unga aldri (90% tilfella komin fyrir 4-5 ára aldur). Húðin er gölluð hvað varðar varnargildi sitt og raka, verður þurr og flagnandi, roði myndast vegna bólgu og kláði verður. Stór hluti meðferðar er mikil notkun á rakakremum, oft sterakrem eða önnur bólguhamlandi krem en einnig ber að varast sem mest sápur. Til eru aðrar tegundir exema svo sem blettaexem á fótleggjum, snertiexem (annaðhvort ofnæmis eða ertingar-snertiexem), flösuexem og fleiri undirtegundir húðbólgu. 
Psoriasis: Þykknaðar húðskellur myndast með yfirborðsflögnun, bólgu og roða með kláða og óþægindum. Bólguhamlandi krem, rakakrem, ljós, og tjara og fleira er notað í meðferð.
Smitsjúkdómar sem valda útbrotum: Bólusett er fyrir mörgum af þessum sjúkdómum svo sem rauðum hundum, mislingum. Þess utan ganga reglulega litlir faraldrar af veiruútbrotasjúkdómum sem eiga það sameiginlegt að vera vægir og hættulitlir. Fimmta veikin er veirusjúkdómur sem leggst á börn mest og veldur bleikum útbrotum frá andliti og niður, einkennandi eru roðaskellurnar í andliti. Mislingabróðir (sjötta veikin, roseola infantum) leggst á börn 6 mánaða-2 ára mest, með háum hita í 2-4 daga og síðan koma fíngerð bleik útbrot víða um líkamann en hitinn dettur niður. „Gin- og klaufaveiki“ (Hand, foot and mouth disease) er síðan annar algengur en saklaus veiru-útbrotasjúkdómur þar sem útbrot eru mest í munnholi, andliti og á höndum og fótum. Ekki má síðan gleyma hlaupabólu með sínum deplum sem breytast fljótt í litlar blöðrur. Hægt er að fá bólusetningu fyrir þessum sjúkdómi.

Leitið ráða

Hægt að leita sér ráða hjá hjúkrunarfræðingi í síma 1700. Einnig er hægt að skoða aðgengilegar upplýsingar um ýmsa sjúkdóma á www.heilsuvera.is Leitið til heilsugæslunnar ef leita þarf ráða eða fá skoðun hjá hjúkrunarfræðingi og/eða lækni.

Sveinbjörn Auðunsson, heimilislæknir og svæðisstjóri Heilsugæslunni Grafarvogi

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu